Að standa eða falla með COVID-19

eftir Gestahöfundur

Þann 7. október greindist ég með COVID-19. Það var ansi mikið áfall fyrir félagslynda, unga konu og framundan blasti við einangrun í að minnsta kosti fjórtán sólarhringa. Ég er stúdent við Háskóla Íslands og er meistaranemi í lögfræði. 

Við tók mikil óvissa, meðal annars um það hvort og þá hvernig ég myndi verða lasin. Eðlilega fylgir því mikil kvíði og ég reyndi að einbeita mér að náminu eins mikið og ég gat.  Framundan var munnlegt lokapróf í skattarétti og ég ætlaði að nýta tímann í að læra fyrir það. En þegar ég tók upp bækurnar fann ég fyrir enn þá meiri kvíða. Því tók ég þá ákvörðun að ég myndi taka sjúkrapróf sem var fullkomlega eðlilegt í mínum aðstæðum. 

Í stuttu máli sagt var ég gríðarlega heppinn og fékk aðeins væg einkenni. Þau byrjuðu sem væg hálssærindi og í kjölfarið ansi gott kvef og þar af leiðandi hausverkur vegna stíflu í nefi. Allan tímann var ég hita- og beinverkjalaus og missti aldrei bragð- né lyktaskyn. Vægast sagt slapp ég vel.

Hið sama verður þó ekki sagt um andlegu heilsuna. Aldrei á ævinni hef ég verið ein jafn lengi, í sama rými og í einangrun. Ég bý í 35 fermetra íbúð á stúdentagörðunum og geri nánast allt í sama rýminu. Ég reyndi að venja mig á að klæða mig á hverjum degi og hafa fyrir stafni eitt verkefni sem ég þyrfti að klára þann daginn. En ég lýg því ekki að stundum var ég bara í náttfötunum og fékk mér pítsu í morgunmat. 

Sem stendur, áformar Háskóli Íslands ekki að veita staðið/fallið í lokaeinkunn, líkt og gert var á vorönn 2020. Í vor var þetta gert til að koma til móts við stúdenta vegna áhrifa kórónuveirunnar. Persónulega heltist ég úr lestinni og var frá í 14 daga, í einangrun.Ég var heppin, en dæmi eru um stúdenta sem hafa fengið veirunna og ekki verið jafn heppnir. Sumir hafa jafnvel þurft að vera lengur í einangrun og fengið mun fleiri og verri einkenni. 

Ég biðla til stjórnenda Háskóla Íslands að koma til móts við stúdenta og taka á ný upp úrræðið frá því í vor. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess fjölda stúdenta sem hefur greinst í þeirri bylgju veirunnar sem nú er reynt að hamla. Margir þeirra glíma við slæm eftirköst og geta því ekki stundað námið af jafn miklum krafti. Að endingu bitnar þetta á einkunnum þeirra og námsárangri í víðum skilningi. Ég vísa til nýlegrar könnunar sem Stúdentaráð Háskóla Íslands gerði sem sýndi fram á mikla vanlíðan meðal stúdenta vegna COVID-19. Fordæmi eru fyrir því erlendis og hér á landi að nemendur geti kosið að hafa einkunn annað hvort staðið eða fallið þessa önnina. Verum samstíga háskólum útí allan heim og veitum stúdentum þennan kost. 

Höfundur, Ingveldur Anna Sigurðardóttir, er nemi í meistaranámi í lagadeild Háskóla Íslands, tók virkan þátt í stúdenta pólitík og var formaður Vöku hagsmunafélags stúdenta og hefur mikinn áhuga á málefnum líðandi stundar.