Að segja af sér eða segja ekki af sér

eftir Jón Birgir Eiríksson

Það má með sanni segja að margt hafi gengið á í íslenskum stjórnmálum undanfarin misseri þótt ekki hafi beinlínis verið búist við því eftir að ný ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks tók við völdum. Óþarfi er að fjölyrða um samtal sex þingmanna á Klaustri og segja málið hafi fangað athygli allflestra landsmanna í lok síðasta árs.

Sem kunnugt er ákváðu tveir þingmenn Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason að stíga til hliðar og taka sér leyfi um ótilgreindan tíma vegna ummæla sinna á Klaustri. Anna Kolbrún Árnadóttir, einnig þingmaður Miðflokksins, situr enn á þingi auk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins. Þá voru þeir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, þingmenn Flokks fólksins, reknir úr flokknum vegna hegðunar sinnar.

Þótt flestir, ef ekki allir, séu þeirra skoðunar að framferði þingmannanna á Klaustri hafi verið til mikils ósóma og ævarandi skammar fyrir þá, þá verður hið sama ekki sagt um afstöðu fólks til þess hvort þessir þingmenn eigi að víkja af þingi og eftirláta þingsæti sín einhverjum öðrum. Milli 74 og 91% sögðust hlynntir afsögn þingmannanna sex í desember.

Það er mikilvægt í þessu samhengi að hafa í huga að það er í valdi þingmannanna sjálfra að segja af sér enda eru þeir lýðræðislega kjörnir til starfans og bundnir við sannfæringu sína eingöngu. Það getur aftur á móti haft pólitískar afleiðingar fyrir þá sjálfa eða flokka þeirra síðar meir, geri þeir það ekki og snúi aftur á þing. Þessir þingmenn sem segja má að liggi í salti nú um stund, þurfa því að gera það upp við sig, m.a. með hliðsjón af þessu, hvað gera skuli. Þá er einnig til þess að líta að langt er til næstu kosninga og kjósendur sumir hverjir gleymnir.

Í gær voru kynntar niðurstöður skoðanakönnunar Maskínu þar sem mál Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, er viðfangsefnið, en hann viðurkenndi í kjölfar þess að Klausturmálið sprakk út að hafa hegðað sér ósæmilega við Báru Huldu Beck, blaðamann Kjarnans, á síðasta ári. Ágúst Ólafur ákvað að taka sér leyfi frá þingstörfum í tvo mánuði og mun að óbreyttu snúa aftur nú í byrjun febrúar.

Meginniðurstaða könnunarinnar var að 51-52% sögðust hlynntir því að Ágúst Ólafur segði af sér, um 32% í meðallagi hlynntir því og 17% andvígir. Þetta varpar nokkru ljósi á hug almennings til álitaefnisins, en hefur þó takmarkaða þýðingu í ljósi þess sem fyrr sagði um að ákvörðunarvald um afsögn sé í höndum þingmanna sjálfra. Það er þó áhugaverðara að rýna í niðurstöðurnar með tilliti til kjósenda flokka á Alþingi til málefnisins, aldurs þeirra og annarra lýðfræðilegra þátta. Til dæmis er fólk líklegra til þess að vera andvígt afsögn þingmannsins meðhækkandi aldri.

Annað sem er áhugavert, er að um 48% þeirra sem sögðust myndu kjósa Samfylkinguna yrði gengið til kosninga í dag, sögðust hlynntir því að þingmaðurinn segði af sér, en 36,8% þeirra sem myndu kjósa Miðflokkinn. Þetta hlutfall var hvergi lægra en hjá kjósendum Miðflokksins.

Þótt ekki megi alhæfa eða draga of víðtækar ályktanir af þessum niðurstöðum er ljóst að fyrrnefndra þingmanna Miðflokksins og þingmanns Samfylkingarinnar eru tengd að því leyti að það gæti haft áhrif á stöðu þingmanna Miðflokksins, snúi Ágúst Ólafur aftur á þing eftir leyfi sitt til tveggja mánaða.

Á kaffistofum landsins hefur sumstaðar verið bent á að í öðru málinu hafi verið um orð að ræða, en í hinu tilfellinu gjörðir. Aðrir benda á að Ágúst Ólafur hafi sjálfur stigið fram, viðurkennt verknaðinn og axlað ábyrgð með því að leita sér hjálpar vegna hegðunar sinnar. Þá hafi sérstök trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar tekið málið til umfjöllunar og því lokið með áminningu.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig málinu vindur fram nú í upphafi nýs árs því það gæti „nýst” þingmönnum Miðflokksins ef Ágúst Ólafur snýr aftur. Þá gætu þingmenn Miðflokksins sjálfir snúið aftur í skjóli þessa. Þá er sá möguleiki fyrir hendi að málin tvö verði látin liggja milli hluta, í það minnsta milli þessara tveggja flokka, og þingmennirnir snúi allir til baka „í skjóli nætur”.

 

Jón Birgir Eiríksson

Ristjórn

Jón Birgir er laganemi við Háskóla Íslands. Hann hefur undanfarin ár starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu og situr í aðalstjórn Fylkis. Þá sat hann í stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík og er nú varamaður í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þar áður var hann formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta. Jón Birgir er einnig píanóleikari hljómsveitanna Bandmanna og Ljósfara.