Að rýna í fjölmiðla með stækkunargleri

eftir Jón Birgir Eiríksson

Fjölmiðlar eru í senn flókin og einföld fyrirbæri líkt og hafa legið undir höggi síðastliðna tvo áratugi eða svo. Arnór Bragi Elvarsson, pistlahöfundur hér á þessum miðli, gerði áskorunum fjölmiðla, eðli þeirra og eignarhaldi góð skil í tveimur greinum hér í síðasta mánuði. Ég mælist til þess að lesendur lesi greinar Arnórs Braga sem eru upplýsandi, en varpa einnig fram áleitnum spurningum um fjölmiðlamarkaðinn hér á landi, einkum í fyrri greininni þar sem einkum er fjallað um áskoranir fjölmiðla almennt á 21. öldinni. Þessi stubbur er hugsaður sem einhvers konar framhald af síðari grein Arnórs Braga þar sem hann veltir meðal annars fyrir sér eignarhaldi fjölmiðla á Íslandi og að hvaða marki það hefur áhrif á fréttavinnslu ef nokkur hér á landi.

Arnór Bragi velti í síðari grein sinni upp þeirri spurningu hvort minnkandi arðbærni fjölmiðla leiði til þess að eignarhald þeirra færist í auknum mæli til sérhagsmunastofnana og stjórnmálaafla. Hann segir að hér á landi virðist þó algengara að eigendur fjölmiðla hafi lítil ef nokkur áhrif á ritstjórnarstefnu fjölmiðlanna, hvað þá störf blaðamanna. Þá rekur hann eignarhald helstu einkareknu fjölmiðla á Íslandi auk helstu persóna, leikenda og stjórnmálaflokka í því samhengi. Væntanlega geta flestir verið sammála framsetningunni í meginatriðum.

Í niðurstöðukafla sínum kemst Arnór að þeirri niðurstöðu að fjölbreytni í íslensku fjölmiðlaumhverfi virðist helst drifin áfram af framtakssemi og atorku fjölmiðlamanna fremur en sérhagsmunum eigendahópa fjölmiðlanna. Því megi teljast varhugavert að reyna að bendla fréttaflutning miðlanna við ákveðnar stjórnmálastefnur. Það sé enda ekki markmið skrifa hans,  heldur að benda á tengsl stjórnmálaflokka við eignarhald fjölmiðlanna. Það eigi erindi við lesendur.

Það er þjóðaríþrótt hér og víðar að hneykslast á fréttaflutningi, stundum með réttu. Oft er því haldið fram að tilteknir fjölmiðlar fylgi ákveðnum línum í fréttaflutningi, til hægri og vinstri, út og suður, jafnvel í tilteknum málum eða málaflokkum. Ýmsar leiðir eru færar til að koma auga á slagsíðu í fréttaflutningi þannig byggja megi undir kenningar um slíkt.

Algjört hlutleysi er ómögulegt

Stundum stöndum við frammi fyrir því að þurfa að bregða okkur í hlutverk þar sem ýmsar hliðar mála þurfa að koma fram með hlutlausum hætti. Þetta er algengara í vissum starfsstéttum, til dæmis í stétt dómara og á sviði stjórnsýslunnar þar sem þarf að komast að lögfræðilega réttri niðurstöðu. Þá þarf að taka báðar/allar hliðar inn í reikninginn. Hið sama á við í fréttaflutningi og ekki síst þegar skrifuð er frétt um hitamál sem jafnvel eru skiptar skoðanir um. 

Maðurinn er aftur á móti breyskur og þekkir sjálfan verr en hann heldur. Enginn getur haldið því fram að hann sé í öllu hlutlaus enda leynist í hverjum kolli í það minnsta arða af skoðun á einhverju málefni eða afstaða til þess. Umhverfi okkar, ævi og upplifanir, móta afstöðu okkar meðal annars til hinna ýmsu hluta og þetta á við um bókstaflega alla, sama þó þeir séu fjölmiðlamenn eða dómarar. Í þessum tilteknu störfum er því sérstakelga nauðsynlegt að viðkomandi geri sitt allra besta til þess að bægja frá sínum eigin skoðunum, þannig rétt og hlutlaus mynd fáist á viðfangsefnið. Mikilvægt er að í þessi störf veljist fólk sem vel er hæft til horfa á hlutina utan frá eins og kostur er.

Það er áskorun að viðhalda hlutleysi í fréttaflutningi og fullyrða má að langflest fjölmiðlafólk hér á landi standist það próf með sóma, oft í erfiðum aðstæðum vegna rekstrarvanda fjölmiðla á 21. öldinni. Kröfur neytenda eru aftur á móti harðar, sem er reyndar líka til fyrirmyndar. Sem fyrr sagði er fingrum oft otað að fjölmiðlum fyrir að sigla skútunni í tiltekna átt og fjölmiðlar sakaðir um slagsíðu hingað eða þangað. Sem fyrr segir er enginn algjörlega hlutlaus. Fólk er ólíkt og það á einnig við um það fólk sem rekur fjölmiðla og starfar fyrir þá dagsdaglega. 

Vísbendingar fréttaþyrstra eru víða

Af framangreindum ástæðum er mikilvægt að fjölmiðlamarkaðir hvarvetna séu fjölbreyttir og að burðugir fjölmiðlar blómstri. Fjölmiðlar reiða sig auðvitað á neytendur frétta þannig það er einnig á ábyrgð neytendanna að gefa mismunandi fjölmiðlum gaum og afla sér mismunandi sjónarhorna á málefni líðandi stundar, til þess að viðhalda fjölmiðlaflórunni. Forsenda þessa er að þeir fjömiðlar sem fyrir valinu verða séu traustsins verðir og leggi sig fram um heiðarlegan fréttaflutning.

Með áherslu á það efni sem fjölmiðlar framleiða sjálfir má má horfa á fjölmargt til þess að grandskoða hvað viðkomandi fjölmiðill er að hugsa. Þannig má horfa til þess hvaða efni birtist hvar og hvenær, hver fyrsta frétt“ fréttatímans sé og þeirra málefna sem fjallað er um í samhengi við þau málefni sem síður er fjallað um. Pláss er enda af skornum skammti í öllum fjölmiðlum og það er tími fréttaneytandans líka. Þá má veita því athygli hvort nauðsynleg sjónarmið komi fram í fréttaflutningi um ágreiningsmál.

Eitt þó það sem oft er milli tanna fólks af efnislegum ástæðum, en getur komið því að sérstaklega góðum notum að forminu til. Það er ritstjórnarefni fjölmiðla, þ.e. efni sem jafnan komið er frá efstu lögum ritstjórnarinnar og er oft skrifað undir nafnleynd. Úr ritstjórnarefni má lesa stefnur og strauma þeirra sem skútunni stýra og sýn á málefni líðandi stundar. Þar er talað tæpitungu- og umbúðalaust.

Þessar hugmyndir má hafa til leiðsagnar þegar annað efni sama fjölmiðils er annars vegar, sem stikkprufu um það í hvaða átt gæti hallað, ef svo vill til. Þessi orð mín má þó ekki skilja sem svo að fingrum sé otað að einhverjum tilteknum fjölmiðlum eða fjölmiðlafólki. Hugmyndin er aðeins sú að ritstjórnarefni í eðli sínu getur þjónað sem almennt varúðartól og vísbending fyrir tortryggna þegar minnsti grunur vaknar um hlutlægni í fréttaflutningi.

Í þessu ljósi má velta því upp hvort það sé áhyggjuefni að ritstjórnarefni virðist síður birtast á vefmiðlum. Þá ættu framfarir tæknialdar að geta gert miðlum í öðru formi, sjónvarps- og útvarpsmiðlum, færi á að koma slíku efni betur á framfæri. Stuðlar ritstjórnarefni að gagnsæi í ljósi þess að enginn getur raunverulega haldið fram algjöru hlutleysi til allra mála?

Jón Birgir Eiríksson

Ristjórn

Jón Birgir er laganemi við Háskóla Íslands. Hann hefur undanfarin ár starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu og situr í aðalstjórn Fylkis. Þá sat hann í stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík og er nú varamaður í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þar áður var hann formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta. Jón Birgir er einnig píanóleikari hljómsveitanna Bandmanna og Ljósfara.