Að nýta voðaverk í pólitískum tilgangi

eftir Ritstjórn

Þegar fréttir fóru að berast af voðaverkunum í Orlando síðustu helgi varð um leið ljóst að þarna hafði átt sér ólýsanlega sorglegur atburður sem flokkast jafnt sem hryðjuverk og hatursglæpur. Rómur vottar samúð sína með öllu hinsegin fólki og stuðning en engin minnihlutahópur á að þurfa að þola hræðslu um að verða fyrir slíkum árásum.

Byssumaðurinn Omar Mateen var fæddur í Queens, New York. Það er óljóst hvort hann hafi haft tengsl við hryðjuverkasamtökin Ríki Íslam en þó þykir vitað að hann hafi orðið fyrir einhverjum áhrifum frá öfgakenndum hreyfingum á netinu. Þrátt fyrir það telja margir að gjörðir hans hafi byggst minna á trú og meira á hatri í garð samkynhneigðra en Pulse er skemmtistaður sérstaklega ætlaður hinsegin fólki.

Þegar vitni koma svo fram og segja Omar hafa verið fastagestur á Pulse auk þess að hafa nýtt sér stefnumótaþjónustur ætlaðar samkynhneigðum verður enn erfiðara að átta sig á hryllingnum sem hefur átt sér stað í hugarbúi hans. Það má geta sér til um að hann hafi átt í gríðarmikilli orrustu við kynhneigð sína innan trúar og bandarísks samfélags sem bælir og fordæmir oft í stað þess að fagna fjölbreytileikanum og bera virðingu fyrir kynfrelsi einstaklingsins. Innri orrustan réttlætir hins vegar á engan hátt gjörðirnar.

Í kjölfar þessa atburðar vakna þó upp fjölmargar spurningar einkum í samhengi við flokk Repúblikana. Repúblikanaflokkurinn, sem er flokkur Lincolns, hefur á undanförnum árum sífellst færst í átt stjórnlyndis þegar kemur að samfélagslegu frelsi einstaklingsins þó flokkurinn aðhyllist áfram efnahagslegu frjálslyndi. Einkum og sér í lagi hefur flokknum tekist að stilla sér upp gegn minnihlutahópum hvort sem þá er átt við fólk af Latino ættum, í gegnum innflytjendastefnu sína, samkynhneigðum þegar kemur að frelsinu til þess að elska eða múslimum þegar kemur að trúfrelsi.

‚Establishmentið‘ hefur að undanförnum árum, jafnt og þétt aukið daður sitt við rasisma og fordóma í þeirri von að vinna atkvæði smáborgaranna. Svo virðist sem bylting sú hafi étið börnin sín þegar Donald Trump tókst að verða frambjóðandi flokksins til forsetaembættisins.

Eins og mörgum er kunnugt stundar Donald Trump stjórnmál sundurlyndis. Hann elur á hræðslu og er pólitíkus sleggjudóma og staðhæfinga úr öllu samhengi. Þessi sami Trump skafar ekki af fordómafullum yfirlýsingunum. Eftir árásirnar reyndi hann að nota þær til þess að skora frekari pólitísk stig og sagði jafnvel að bandarískir ríkisborgarar sem væru Múhameðstrúar hylmdu yfir ætlanir öfgamanna líkt og Omar Mateen. „Ég sagði ykkur það,“ sagði Trump.

Bandaríkjamenn virðast þó ætla að átta sig á að slík viðhorf eru ekki vænleg til árangurs hvorki þegar kemur að því að styrkja stöðu Bandaríkjanna í heiminum né í uppbyggingu samfélags heimavið því nú mælist fylgi Trumps minna en nokkru sinni áður.

Það er vonandi að almenningi í Bandaríkjunum beri gæfu til þess feta stíg umburðar- og frjálslyndis í stað sundurlyndis og hræðslu með því að kjósa bara eitthvað annað en Donald Trump.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.