Að lemja konuna sína á Íslandi

eftir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Kvennréttindamál hafa að undanförnu átt stóran sess í umræðunni. Síðan um aldamót hefur miklum áföngum verið náð í að lyfta hulunni af mikilvægum málaflokkum sem áður voru hjúpaðir þögulmennsku vegna smánar og skammar sem þeim þótti fylgja. Kynferðisofbeldi til dæmis, getur verið ein birtingamynd heimilisofbeldis, en þegar viðhorf gagnvart slíku ofbeldi tóku stakkaskiptum fengust í gegn mikilvægar breytingar í verkferlum hins opinbera í kjölfarið. Hvar stöndum við þá nú í heimilsofbeldismálum almennt? Hvernig er unnið gegn heimilisofbeldi á Íslandi? Þessi grein stiklar á stóru um heimilisofbeldi hérlendis með áherslu á nýjar aðferðir lögreglu til að taka á þessum vanda.

Hvað er heimilisofbeldi?

Samtök um kvennaathvarf hérlendis hafa skilgreint heimilisofbeldi sem: „ þegar einn fjölskyldumeðlimur kúgar annan í skjóli friðhelgi heimilisins og tilfinningalegrar-, félagslegrar- og fjárhagslegrar bindingar“. Þó eru til margar mismunandi skilgreiningar á heimilisofbeldi, en það sem aðgreinir þær er helst hversu ítarlegar þær eru, eins og hvort líkamsmeiðingar séu sértaklega teknar fram. Þær eiga það þó allar sameiginlegt að ræða um valdbeitingu í kúgunarskyni gagnvart manneskju sem tengd er geranda tilfinningaböndum.

Hverjir lemja?

Ýmsar kenningar hafa sprottið upp um hvað einkennir gerendur í heimilsofbeldismálum. Árið 2011 kom úr skýrsla velferðarráðherra um aðgerðir samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna ofbeldis karla gegn konum í nánum samböndum. Í skýrslunni er nefnt ýmsa hugsanlega orsaka þætti eins og efnahagserfiðleika, en þeir auka almennt streitu og geta því leyst ofbeldið úr læðingi. Ásamt einstaklingseinkennum gerenda sem oft eru tengd fyrri reynslu, aðstæðum og persónuleikatruflunum. Skýrslan tekur einnig sérstaklega fram að neysla áfengis og ofbeldi í nánum samböndum eru nátengdir þættir. Árið 1997 gerði Dómsmálaráðuneytið könnun á heimilisofbeldi sem spurði konur um eigin skýringar á ofbeldinu. Þar nefndu 71,4% kvennanna áfengi, 62,5% afbrýðisemi, 30,4% skilnað eða ósk um skilnað, 25,9% ágreining um fjármál, 8% ágreining um börn, 7,1% alvarleg veikindi, 6,3% atvinnumissi og 4,5% meðgöngu.

Flestir morðingar eru hvítir karlmenn, og flestir gerendur heimilisofbeldis eru líka karlmenn! (Tölfræðilega séð..)

Margir velta kannski fyrir sér afhverju heimilisofbeldi gegn konum er sérstaklega skoðað hérlendis frekar en heimilisofbeldi gegn körlum, en það er sennilega vegna þess að talið sé að karlar séu almennt gerendur. Margur hefur gagnrýnt þetta og bent á að konur séu nú alveg jafn vígalegar og karlar í þessum málum. Vissulega eru til konur sem beita heimilisofbeldi en slíkt ofbeldi er oftast mest megins andlegt. Karlar gera það líka, en bæta frekar við líkamlegu ofbeldi sem er þá grófara en ofbeldi af hendi konu. Einnig ber að hafa í huga að ofbeldisbeiting getur bæði verið árás og vörn. Rannsókn dómsmálaráðuneytisins sýndi að konur sem beita ofbeldi hafa hlutfallslega mun oftar verið jafnframt þolendur ofbeldis, en karlar sem beita ofbeldi. Af þeim konum sem eru gerendur hafa 70% einnig verið beittar ofbeldi, á meðan 37% karlkyns þolenda voru einnig gerendur. Nýjar rannsóknir á þessum málaflokki virðast almennt styðja þennan áherslumun í rannsóknum. „Saman gegn ofbeldi” er nýtt samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um átak gegn heimilisofbeldi. Áfangamat Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum (RIKK) sem sér um að meta framgöngu verkefnisins, rannsakaði töluleg gögn lögreglu frá árinu 2015. Þar mældust flestir árásar- og brotaþolar konur (60%) og flestir árásaraðilar karlar (78%).

Hversu oft?

Það er erfitt að mæla rauntíðni heimilisofbeldis á Íslandi þar sem ekki eru allir sem segja frá sínu ofbeldi. Því má hugsa að mælingarnar vanmeti raunverulega tíðni heimilisofbeldis, þó þær gefi góða vísbendingu um hversu algengt það er.
Hérlendis er engin miðlæg skráning á ofbeldi gegn konum en Barnaverndarstofa, Kvennaathvarfið og lögreglan eru með ágætar skráningar sem miðast við eigin starfsemi.
Í víðtækri rannsókn Rannsóknarstofnunnar í barna- og fjölskylduvernd frá 2010, kemur fram að rúmlega 42% aðspurðra kvenna á Íslandi hafa verið beittar ofbeldi einhvern tíma eftir 16 ára aldur. Þegar hlutfallið var umreiknað miðað við fjölda kvenna jafngildir það að 44-49 þúsund konur á þessu aldurbili hafi verið beittar ofbeldi á lífsleiðinni. Rúmlega 22% kvenna höfðu verð beittar ofbeldi í nánu sambandi einhvern tíma frá 16 ára aldri.
Tilkynningar sem berast lögreglu um heimilisófrið eru flokkaðar eftir eðli málanna, annars vegar í ágreining og hins vegar í heimilisofbeldi. Á árinu 2013 bárust lögreglu höfuðborgarsvæðisins 593 tilkynningar varðandi heimilisófrið í Reykjavík en af þeim voru 438 mál skilgreind sem ágreiningur og 155 mál sem ofbeldi.
Samkvæmt upplýsingum úr skráningakerfi Barnaverndar Reykjavíkur bárust, á tímabilinu janúar til ágústloka 2014, tilkynningar um átök á heimilum 69 barna en þar af voru tilkynningar frá lögreglu vegna 54 barna. Áfangamat RIKK skoðaði einnig fjölskyldugerð þolanda hjá lögreglu árið 2015, í tæplega 68% tilvika var barn eða börn lögheimili á heimilinu, þar sem stærsti hópurinn eða 44% eru einstæðar mæður. Heimilsofbeldi er því skuggalega algengt og í ljósi þess hversu stór hópur þolenda á börn má áætla að áhrif þess séu vægast sagt víðfem.

Með lögum skal landið byggja, og með lögreglu sporna við heimilisofbeldi.

Þessi málaflokkur var þess eðlis að það var aldrei nein framför, sérstök, í honum. Gamla kerfið var sem sagt það að við komum á staðinn en svo sat þolandinn í því að það eigi að fylgja þessu eftir og heimilisofbeldi á það til að vera vítahringur, það koma góðir tímar og slæmir tímar. Þannig að eftir slæma tímann kom góður tími og þá var ekkert gert, svo kom annar slæmur tími og þá aftur vorum við á núllpunkti.

Þetta hafði einn lögreglumaður að segja í áfangamati RIKK um fyrri verkferla lögreglu. Markmið samstarfsverkefnisins Saman gegn ofbeldi, er að bæta rannsóknir í málum er varða heimilisofbeldi með því að; beita fyrstu viðbrögðum lögreglu á markvissari máta, fækka ítrekunarbrotum, bæta tölfræðivinnslu, bæta aðstoð við þolendur og gerendur, nýta betur úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili, og að ná fleiri málum í gegnum réttargæslukerfið. Átakið tæklar þannig áhrifaleysi í verkferlum lögreglu en til dæmis takmarkaðist geta lögreglu til að aðstoða þolenda í útkalli, oftast nær við það eitt að stoppa áflogin og ræða við gerandann. Yfirleitt var hann ekki fjarlægður af heimilinu og nálgunarbanni var sjaldan beitt, enda þurfti til þess sérstakan dómsúrskurð. Ennfremur var lítil eftirfylgni með stöðu mála þar sem þolandi þurfti sjálfur að bera ábyrgð á að sækja sér aðstoð, nema ef börn væru á heimilinu sem þýddi að málið heyrði undir Barnavernd. Birtingamynd þessa vanmáttar mátti sjá í skýrslu dómsmálaráðuneytisins um tilkynningar til lögreglunar. Þó 65% þeirra kvenna hafi verið ánægðar með afskipti lögreglunnar, var fjórðungur þeirra mjög ósáttur með hvernig lögreglan tók á málinu. Í annarri nýlegri rannsókn, voru einungis um 34% kvenna mjög sáttar með hvernig lögreglan tók á málinu af þeim sem tilkynntu atvikið til lögreglu.
Svo virðist þó sem verkefnið sé að skila árangri. Með nýjum verkferlum lögreglunnar hefur tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgað, sem bendir til aukins traust á því að stjórnvöld geti veitt aðstoð. Sumar verklagsbreytingar virðast þó sérstaklega mæta sterkar til leiks. Til dæmis ráðfæra lögreglumenn sig núna við stöðina í útkalli, sem flokkar mál þannig að ásamt rannsóknalögreglumönnum mæta einnig sérfræðingar frá Barnavernd og félagsþjónustu eftir því sem við á. Einnig fer lögregla og fulltrúi félagsþjónustu í heimsókn á heimilið eftir að útkall hefur átt sér stað, en í mati RIKK kom fram að þeir sem hafa fengið eftirfylgniheimsókn eru mjög jákvæðir gagnvart slíku verklagi. Heimild lögreglu til að veita nálgunarbann í stað dómara hefur einnig verið aukin undanfarin ár og hvatning lögreglu til að kynna það úrræði fyrir þolenda hefur einnig skilað góðum árangi. Söfnun sönnunargagna á vettvangi hefur batnað, m.a. með myndatöku á vettvangi en slíkt hefur nýst ákaflega vel erlendis í heimilisofbeldismálum. Starfsfólk ákærusviðs lögreglu gladdist sérstaklega yfir þeirri breytingu þar sem þolendur gæti þótt erfitt að áverkavottorð strax en þegar það eru til vettvangs myndir af áverkum er hægt að sækja málin á þeim grundvelli síðar.

Hvað hafa þolendur um þetta að segja?

Í áfangamati RIKK var ekki gerð viðhorfskönnun en viðtöl við þolendur bentu til aukinnar öryggistilfinningar vegna verkferla breytinganna. Þó svo að þolendur hefðu úrræði eins og kvennaathvarfið, hafði hingað til ekki verið mikið annað en að vona að gerandinn yrði látin sæta fangelsisvist eða þá að vonast að gerandinn myndi sjá að sér að nýta sér úrræðið Karlar til ábyrgðar (KTÁ). KTÁ er sálfræðiþjónusta fyrir karlkyns gerendur sem vilja leita sér aðstoðar vegna þess ofbeldis sem þeir hafa beitt. Á mörgum viðmælendum mátti þó skilja að stærsti vandinn væru þeir aðilar sem ekki hafa áhuga á að þiggja meðferð eða aðstoð, og því var það verulega mikilvægt fyrir þolendur að finna stuðning frá hinu opinbera gagnvart geranda sínum. Viðmælendum þótti breytingin valdeflandi og styrkja sína stöðu gagnvart gerandanum. Sem er gríðarlega mikilvægt.
Enn á eftir að gera heildarmat á þessu verkefni en þess er vænst að ári liðnu, en að öllum líkindum lofar verkefnið góðu og því er spurning hvort næstu rannsóknir á ofbeldi gagnvart konum sýni marktæka breytingu á alvarleika ofbeldis og lengd ofbeldistíma.

Hvað kostar að lemja?

Dómsmálaráðuneytisskýrslan dregur fram nokkra kostnaðarliði sem koma fram vegna heimilisofbeldis á Íslandi. Kostnaður vegna heimilisofbeldis árið 1997, þá bara vegna fyrsta stigs viðbragða samfélagsins (Neyðarmóttaka, aðstoð sérfræðinga á vegum ríkisins, lögregla) hljóp á tugum milljarða! Sennilega hefur þessi tala hækkað töluvert með árunum. Hvert högg er því samfélaginu vægast sagt dýrkeypt.

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Pistlahöfundur

Alda María er MS nemi í Þjónustustjórnun og varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en hún er einnig með BS gráðu í sálfræði. Hennar helstu áhugamál eru heilbrigðismál, hagfræði, fólk, samfélagið í heild og eftirréttir.