Að læra lög í Trumplandi

eftir Snorri Sigurðsson

188 dögum eftir að Donald Trump var svarinn í embætti sem 45. forseti Bandaríkjanna lá leið mín til hjarta Trumplands. Mörgum mánuðum áður hafði ég hafið langt og leiðinlegt ferli en 3 flugum síðar var ég kominn til Baton Rouge í Louisiana þar sem ég ætlaði að læra lög næstu 5 mánuði í skiptinámi við Louisiana State University (LSU).

Fyrirlestrar vs. Sókratíska aðferðin

Markmið pistilsins er ekki að skrifa bloggfærslu um líf mitt í Louisiana heldur skoða og bera saman kennsluaðferðir og kröfur sem gerðar eru til nemenda annars vegar í Háskóla Íslands (HÍ) og hins vegar í LSU. Þess skal þó getið að einungis er um að ræða upplifun mína af lagadeildum skólanna tveggja þótt margt megi heimfæra á aðrar deildir innan HÍ.

Grundvallarmunur á kennslu í LSU og HÍ felst í fyrirlestraraðferðunum. Heima á Íslandi er oftar en ekki notast við fyrirlestrarform þar sem kennarinn matar nemandann af lesefni dagsins og varpar kannski 1-2 spurningum út í sal ef vel liggur á honum. Í Bandaríkjunum er Sókratíska aðferðin (e. Socratic Method) notuð en lykilatriði í þeirri aðferðafræði er að virkja nemendur í kennslustofunni. Að sjálfsögðu er líka um eiginlegan fyrirlestur að ræða en munurinn felst í sífelldum spurningum kennarans sem ýmist er beint að einstakling eða öllum hópnum. Þannig verður þátttaka og athygli nemenda mun meiri og fólk þjálfast í að tjá sig fyrir framan samnemendur sína.  Að sama skapi er pressan og kröfurnar sem gerðar eru til nemenda meiri.

Kröfur til nemenda

Óumflýjanleg hliðarverkun þess að nemendur þurfi að svara spurningum kennarans eru auknar kröfur um að vera vel undirbúinn fyrir tímann. Auðvitað er sambærileg krafa gerð til nemenda í HÍ en hvatinn sem fylgir því að þurfa að svara spurningum kennarans fyrir framan alla þegar nafnið þitt er kallað er ekki til staðar. Með Sókratísku aðferðinni er komið í veg fyrir að annað hvort allir þegi og hugsi „þessi svarar ábyggilega“ af ótta við að hafa rangt fyrir sér eða að segja einfaldlega „ég veit það ekki“. Þannig er hægt að gera kröfur til nemenda á háskólastigi að þeir svari spurningum sem beint er að þeim persónulega án þess að nemendur taki það nærri sér og upplifi jafnvel einhvers konar einelti af hálfu kennarans. Tilfinningin er óþægileg í fyrstu en kostirnir vega þyngra en gallarnir.

Upptaka kennslustunda eða skyldumæting

Það hefur lengi verið baráttumál Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) að nemendur fái aðgang að upptökum á fyrirlestrum. Út frá sjónarmiðum um jafnrétti til náms er þetta eðlileg krafa en erum við að fórna möguleikanum á fjölbreyttari kennsluaðferðum ef við höldum fast í fyrirlestraformið og krefjumst þess sömuleiðis að fyrirlestrarnir verði teknir upp? Fara kennarar að passa sig um of hvað þeir segja og mun á annað borð einhver mæta í tímann sem byrjar kl 8:20? Ólíkt því sem tíðkast í HÍ þá er skyldumæting í alla tíma í LSU. Nemendur hafa svigrúm til þess að missa af ákveðið mörgum tímum áður en þeir eru skráðir úr áfanganum. Þetta stuðar líklega marga nemendur HÍ en hvers vegna er ekki hægt að gera kröfu um að fólk mæti að jafnaði í skólann þó að einstaka nemendur hafi ekki kost á því? Auðvelt er að gera þeim sem raunverulega þurfa kleift að horfa á fyrirlestra í rauntíma á lokuðu svæði á netinu og koma þannig til móts við flesta með það að leiðarljósi að auka gæði kennslu.

Best of Both Worlds

HÍ og fyrirlestrarformið ber höfuð og herðar yfir LSU þegar kemur að hefðbundnum útskýringum á efni. Kaninn hefur enn ekki áttað sig á því að hægt sé að nota glærusýningar til að fara skipulega yfir námsefnið sem getur gert einfaldan hlut flókinn. Aftur á móti skapar mætingaskyldan og Sókratíska aðferðin mun líflegri og skemmtilegri kennslustofu þar sem miklar kröfur eru gerðar til nemenda. Ein leið til að sameina það besta úr báðum aðferðum er vendikennsla sem SHÍ hefur lengi barist fyrir. Það má þó ekki vera eina baráttumál SHÍ þegar kemur að kennslumálum því að grundvöllur í vendikennslu er upptaka kennslustunda sem margir kennarar HÍ eru mótfallnir. Hvorug aðferðin er fullkomin en það þarf ekki að umbylta kennslu í HÍ. Það eru fleiri leiðir til að ná markmiði SHÍ um aukna þátttöku nemenda í fyrirlestrum.

 

Snorri Sigurðsson

Pistlahöfundur

Snorri er lögfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann var gjaldkeri Orators, félags laganema við Háskóla Íslands, í stjórn Vöku, sat í Umhverfis- og samgöngunefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands auk þess að vera varamaður Vöku í Stúdentaráði. Skrif Snorra í Rómi snúa aðallega að lögfræði og öðru henni tengdu.