Að kjósa með fótunum

eftir Ritstjórn

Í stjórnmálaumræðu eftir hrun hafa komið upp ýmsar hugmyndir um það hvernig umgjörð við viljum skapa fyrir samfélagið til framtíðar. Margir virðast vera á þeirri skoðun að breyta eigi stjórnarskránni í grundvallaratriðum. Aðrir hafa lagt áherslu á þjóðin eigi að fá að kjósa um sem flest. Eins og einkennir oft umræðu á Íslandi hefur umræðan um framtíðina einkum einkennst af upphrópunum. Hugarfarið hefur verið á þá leið að fæstir eru tilbúnir að miðla málum og telja sig búa yfir réttu hugmyndinni, hinum heilaga sannleik. Slík umræða orsakar það að lítið hefur miðað áleiðis þegar kemur að mótun framtíðarsýnar þjóðarinnar.

Afleidd óvissa er ekki góð. Hún skapar þau skilyrði að erfitt er að gera sér í hugarlund hvers konar tækifæri Ísland mun geta boðið borgurum sínum upp á. Þó það sé ef til vill ekki vinsælt að segja það, þá var eitt af því góða við ástandið fyrir hrun einmitt það að allir vissu hvert landið stefndi. Hér átti að verða fjármálamiðstöð og allir voru í útrás. Fyrir vikið var ‚beina brautin‘ mjög augljós og nóg af væntum tækifærum fyrir hvern þann sem vildi skara fram úr eða leika á stóra sviðinu. Nú er staðan hins vegar sú að enginn veit hvert ferðinni er heitið sem stuðlar að því að ungt fólk lítur út fyrir landsteina þar sem tækifærin eru oft og tíðum augljósari.

Ótækt að ráfa stefnulaust áfram

Þó síðar hafi komið í ljós að öll góðærisvegferðin hafi verið byggð á hæpnum forsendum þýðir það hins vegar ekki að það sé eftirsóknarvert að ráfa allt að því stefnulaust áfram án skýrrar framtíðarsýnar. Það er hins vegar raunin og enginn stjórnmálaflokkur hefur með trúverðugum hætti gefið til kynna hvernig hann sér Ísland fyrir sér eftir tuttugu ár.

Einn er sá mælikvarði sem er býsna heppilegur til þess að mæla framtíðarhorfur hér í samanburði við önnur ríki heims en hann er sá að skoða hvort ungt fólk hafi hug á að búa hér til frambúðar. Sé sá mælikvarði notaður er ljóst að vandi steðjar að.

Fjórir þættir skipta miklu fyrir búsetuval

Þó margt spili inn í svo veigamikla ákvörðun fólks eru fjórir þættir sem skipta miklu. Í fyrsta lagi þarf að vera ákjósanlegt að ala upp fjölskyldu hér heima. Að þessu leyti stöndum við vel. Í öðru lagi þarf almenningur að geta búið við mannsæmandi kjör. Kaupmáttur hefur hér verið að aukast mjög hratt á síðasta ári eða svo hér hefur verið unnið mikið og gott starf til þess að tryggja góð kjör almennings. Í þriðja lagi þarf fólk að hafa þess kost að geta komið yfir sig þaki og skotið rótum. Óhætt er að segja hér þurfi menn að bretta upp ermar. Íslenska húsnæðiskerfið hefur alla tíð verið byggt á einni skammtímalausn á eftir annarri og nú þarf að finna langtímalausn. Í fjórða lagi þurfa hentug atvinnutækifæri að vera nægjanlega mörg. Það kann að hljóma eins og klisja en þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta um að fólk sjái möguleika á að láta drauma sína rætast. Því miður hefur atvinnutækifærum heldur farið fækkandi en fjölgandi.

Með orðum Ásgeirs Jónssonar, deildarforseta hagfræðideildar HÍ: „Þessar ungu kynslóðir hafa verið að dragast aftur úr. Gögn benda til þess að þetta fólk fái lægri byrjunarlaun og að það hafi ekki fengið launahækkanir með auknum starfsaldri eins og hefur áður þekkst. Það virðist vera að fólk sé að fá minna sérhæfð störf, töluvert af störfum sem ungt fólk fær núna er í þjónustu-, verslunar- og veitingageiranum.“

Staðan sem lítur út fyrir að komi upp, í samhengi við fjölda hentugra atvinnutækifæra, er því mjög alvarleg og veitir stjórnmálaflokkum þvert á hið pólitíska litróf tilefni til þess að hefja sig yfir hið daglega argaþras umræðunnar. Ef stjórnmálaflokkum tekst ekki að mæta þeirri áskorun að setja fram raunhæfa framtíðarsýn í komandi kosningum, er ljóst að sífellt fleiri munu kjósa með fótunum og Ísland hefur svo sannarlega ekki efni á spekileka.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.