Að flytja að heiman… og heim?

eftir Elísabet Erlendsdóttir

Ég hef alltaf verið mjög heimakær og stolt af uppruna mínum. Ég segi hverjum sem vill heyra að ég sé að austan. Því hvarf það mér aldrei úr huga við störf mín sem formaður Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík (SFHR), þar sem ég gætti hagsmuna tæplega 4.000 nemenda Háskólans í Reykjavík, að ég hefði rödd landsbyggðarbarns. Þessi rödd hefur ekki verið sérstaklega hávær í stúdentapólitíkinni síðustu ár svo ég sá þar tækifæri. Á sama hvaða vettvangi ég mætti til að sinna starfi mínu, í HR, hjá ráðuneytum, LÍN eða hvaðeina, hafði ég alltaf í huga að mitt innlegg skyldi vera eins mikið í þágu þeirra stúdenta sem sem koma frá landsbyggðinni til að sækja sér háskólamenntun, eins og kostur væri.

Í háskólasamfélaginu í dag er mikið talað um jafnt aðgengi að námi. Jafnt aðgengi að námi þýðir að allir ættu að eiga þann kost að geta stundað nám eins og þeim hentar best. En felur það í sér að öllum sé ýtt í þéttbýli þar sem nám á framhalds- eða háskólastigi er kennt? Eða felur það í sér að geta sótt nám sem er ekki kennt í heimabyggð, t.d. með fjarnámi, háskólabrú eða öðrum hætti?

Ungt fólk hefur setið eftir í lífskjarabaráttunni

Eins og staðan er í dag þurfa einstaklingar sem hyggjast sækja sér háskólamenntun, annars staðar en í þeirra heimabyggð, mjög gott bakland. Fyrir utan almenna hvatningu þurfa stúdentar að finna sér nýtt heimili og fjármagn til að framfleyta sér. Það er alls ekki á allra færi að kaupa húsnæði og frumskógur leigumarkaðarins er eitthvað sem á frekar heima í náttúrulífsmynd.

Vegna þess hversu dýrt það er fyrir stúdenta, sem hafa ekki annan kost en að flytja til að sækja sér menntun, eru þeir háðari samnemendum sínum um námslán. Grunnframfærslulán LÍN, miðað við námsmann í leigu- eða eigin húsnæði, er 165.717 kr á mánuði. Það á að duga til að setja þak yfir höfuðið á mér og mat á eldhúsborðið. Til samanburðar eru atvinnuleysisbætur 202.054 kr á mánuði.

En vandinn vex. Ungt fólk hefur setið eftir í lífskjarabaráttunni eins og ítrekað hefur komið fram að undanförnu. Í nýlegri greiningu Arion banka á kaupmáttarþróun fólks hér á landi síðasta aldarfjórðunginn kom fram að þrátt fyrir að ráðstöfunartekjur fólks hafi aukist um 41% að meðaltali á föstu verðlagi gildir það alls ekki um yngri kynslóðirnar. Ráðstöfunartekur fólks á aldrinum 20-24 ára hafa aðeins aukist um 7% og þær hafa dregist saman hjá fólki á aldrinum 16-19 ára. Niðurstöður Arion banka samræmast niðurstöðum könnunar sem félagsvísindastofnun gerði fyrir samferðafólk mitt í Stúdentaráði Háskóla Íslands um að uppreiknaðar mánaðartekjur nemanda hafa lækkað um 100.000 kr eða 31% frá árinu 2004. Hvernig á að lifa af þessa hungurleika?

Íslenskt háskólasamfélag mæti þörfinni

Það að ég eigi erfiðara með að ná endum saman yfir langa vetra í Reykjavík er ekki minn hugarburður eftir allt saman. Ef ég horfi á rauðu tölurnar sem blasa við þegar ég opna heimabankann væri það því mikils virði að geta stundað háskólanám í heimabyggð. Vegna örrar tækniþróunar síðustu ár eru möguleikarnir óþrjótandi. Í dag eru nútímavæddir kennsluhættir helstu kröfur námsmanna og ef íslenskt háskólasamfélag á að standast alþjóðalegan samanburð verður það að mæta þörfinni. Nú þegar gefst sá kostur að stunda fjarnám í einhverjum háskólum landsins og þar með að halda kyrru fyrir í sinni heimabyggð. Fjarnám einskorðast þó í dag við ákveðnar námsgreinar en ég tel að þarna felist mikið sóknartækifæri fyrir þekkingaruppbyggingu á landsbyggðinni. Betur má ef duga skal.

Svo landsbyggðin þróist í takt við alþjóðavæðingu heimsins þarf möguleikinn á því að geta sótt sér háskólamenntun annars staðar að vera raunverulegur. Þá er brýnast af öllu að sjá tækifæri í því að koma heim.

Við viljum ekki fylla upp í gömul störf

Ég er reglulega spurð að því hvort ég ætli að flytja austur og starfa þar þegar ég lýk námi. Við þessari spurningu hef ég þó enn ekkert gott svar. Mér finnst tilhugsunin um að stofna fjölskyldu í Reykjavík skrítin en jafnframt finnst mér tilhugsunin um farsælan starfsframa, eins og þann sem mig dreymir um, á Austurlandi óraunhæf.

Hljómurinn er álíka hjá jafnöldrum mínum. Við sjáum einfaldlega fá tækifæri í því að snúa heim að námi loknu. Þá er umræðan í samfélaginu neikvæð í gegn sem hefur þær afleiðingar að okkur skortir vilja til að búa til eigin tækifæri. Það er erfitt að ætla sér að taka fyrstu skrefin skuldsett upp fyrir haus, á byrjunarreit með 0 krónur í reynslubankanum. Þarna liggur raunverulegur vandi.

Einna helst þurfum við atvinnutækifæri. Það er misjafnt eftir námi hvaða störf bjóðast eftir útskrift. Það virðist stundum vera þrautinni þyngri að manna ýmsar mikilvægar stöður í grunnþjónustu á landsbyggðinni en mín tilfinning er sú að ungt fólk vilji ekki flytja aftur heim, eingöngu til að fylla upp í það sem vantar. Tækifærin þurfa að vera þess eðlis að þau einskorðist ekki við að feta í fótspor þeirra sem á undan okkur komu. Við viljum eitthvað meira og betra. Það sem við viljum er að skapa aukin verðmæti og aukna þekkingu fyrir samfélagið sem við ólumst upp í. Við viljum sækja fram en ekki vera í eilífri varnarbaráttu

Mikilvægi þekkingaruppbyggingar er óumdeilanleg

Til að þekkingaruppbygging á landsbyggðinni sé sem mest þarf að vera grundvöllur og aðstaða til framfara. Við þurfum samkeppnishæft nám í grunn- og menntaskólum svo börn og unglingar standi jafnfætis þeim sem koma úr öðrum skólum þegar kemur að námi á háskólastigi. Þau þurfa tækifæri til að finna sinn farveg svo hæfileikar þeirra þrífist sem best. Þau þurfa að sjá tilgang í að snúa heim og þar með miðla þau þekkingunni sem þau hafa öðlast.

Við þurfum að auka tengingu háskólasamfélagsins við atvinnulífið á landsbyggðinni. Efling háskólabrúa myndi opna á fjölmarga möguleika á starfsnámi, nýsköpunarverkefnum og frumkvöðlastarfsemi og þar yrði framgangur sem ungt fólk hefði áhuga á.

Mikilvægi þekkingaruppbyggingar fyrir byggðaþróun á landsbyggðinni er óumdeilanleg. Verkefnum á borð við L.ung.A, Bræðslan og Aldrei fór ég suður fylgir gríðarleg verðmætasköpun og gefur til kynna hversu frjótt fólkið og umhverfið er í raun. En til þess að þekkingin skapist og haldist þar sem hennar er þörf verður að sýna vilja í verki og efla þann sköpunarkraft sem við búum yfir.

Greinin er unnin upp úr erindi höfundar á 50 ára afmælismálþingi sambands sveitarfélaga á Austurlandi þann 31. mars.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Elísabet Erlendsdóttir

Pistlahöfundur

Elísabet er með B.Sc. í rekstrarverkfræði frá Háskólann í Reykjavík, fædd og uppalin á Egilsstöðum. Hún starfar á sviði Viðskiptalausna hjá Advania en hennar helstu áhugamál eru nýjungar í tækni- og nýsköpunargeiranum og jafnréttismál. Hún situr í stjórn Ungra athafnakvenna og gegndi embætti formanns Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík skólaárið 2015-2016.