Að alast upp í Kóreu

eftir Gestahöfundur

„Því meira sem maður ferðast því meira elskar maður Ísland“. Þetta veganesti sem pabbi gaf mér áður en ég fór að skoða heiminn fær mig alltaf til að bera saman líf mitt á Íslandi og líf þeirra sem búa á þeim stöðum sem maður sækir heim.

Nú er ég nýkominn heim frá Kóreu (nei ekki Norður Kóreu) eftir þriggja mánaða dvöl. Ég valdi að fara þangað þar sem ég hef mikinn áhuga á kóreskri menningu og ég gæti vel hugsað mér að starfa þar í nokkur ár. Seoul er sennilega eina stórborgin sem mér, smábæjarstráknum frá litlu Reykjavík, finnst þægilegt að vera í. Samfélagið er mjög þróað, fólkið er kurteist og það er almennt þægilegt að umgangast Kóreubúa og vera í Kóreu. Eftir að hafa kynnst og spjallað við heimamenn komst ég fljótt að því að Kórea er ekki jafn mikil paradís og ég bjóst við.

Rétt er að halda því til haga, að það sem fram kemur hér að neðan er aðeins mín upplifun sem byggð er á því sem ég heyrði og varð áskynja á ferðalagi mínu um Kóreu.

Það eru fáir staðir í heiminum þar sem samkeppni er jafn hörð og í Kóreu. Strax í leikskóla læra kóresk börn að lesa kóreskt letur til jafns á við latneskt letur. Einnig geta flest kóresk börn reiknað einföld stærðfræðidæmi þegar þau fara í grunnskóla. Þegar leikskólagöngu er lokið þá virðist alvaran taka strax við. Það er ekki langt síðan hætt var að notast við líkamlegar refsingar í kóreska skólakerfinu en nákvæmlega það gefur til kynna hversu strangt og agað skólakerfið er. Í raun mætti tala um heraga.

Áður en Kóreubúar fara í menntaskóla (e. high school) þá hafa þau einnig lokið gagnfræðaskóla (e. middle school). Öfugt við Ísland, eru unglingarnir alls ekki spenntir fyrir því að komast upp á þetta námsstig. Menntaskólinn er þrjú ár, frá 15 til 18 ára, og jafnframt erfiðasti tíminn fyrir kóreska námsmenn. Vanalega er mæting í skólann klukkan 8 á morgnana en fæstir fara heim fyrr en 10 um kvöldið. Það virðist vera lang mikilvægasti tíminn til þess að fá góðar einkunnir þar sem samkeppnin um að komast í “bestu” háskólana er gríðarleg. Oft ef nemendur komast ekki í skóla sem þeir sætta sig við þá taka þeir ár í viðbót til þess að taka prófin aftur.

Í Kóreu er mjög mikið menntasnobb og þar er gríðalegur fjöldi af menntuðu fólki þannig að stóru fyrirtækin velja vanalega aðeins einstaklinga sem koma úr “bestu” háskólunum. Það virðist vera þannig að háskólatíminn sé sá tími sem kóreskir nemendur byrja að njóta sín og lifa lífinu á eðlilegan máta. Krakkarnir byrja að upplifa heiminn, prófa að drekka og leita sér að maka. En þar sem margir foreldrar eru frekar íhaldssamir þá eru margir hlutir gerðir í leyni og foreldrunum lítið sagt frá. Ég hef aldrei séð jafn mikið kynslóðabil og það sem ég upplifði í Kóreu. Þar sem það er stutt síðan Kórea þróaðist mjög snöggt þá ólust þeir sem eldri eru upp við allt aðrar aðstæður. Þetta, ásamt því hversu litlar íbúðirnar eru þarna, hefur verið valdur þess að “bang” menningin hefur orðið mjög vinsæl. Bang þýðir herbergi á kóresku og snýst þessi menning um að leigja sér herbergi sérútbúið fyrir það sem þú sækist eftir. Þá er að nefna PC-bang, karaoke, ástarhótel og herbergi þar sem hægt er að borða í næði. Það sem mér fannst þó mest áhugavert var DVD-bang. Þar gastu leigt svefnherbergi og horft á mynd með kærustu/kærasta þínum, í rauninni „netflix and chill”, þar sem það þykir óeðlilegt að gera þetta í foreldrahúsum. Einnig vilja foreldrar oft ekkert heyra eða vita af mökum barna sinna fyrr en það eru komnir trúlofunarhringar. Þrátt fyrir þetta sinna kóresk pör sambandinu sínu mjög vel og er mikið um alls kyns paravörur eins og föt í stíl. Margir vestrænir hátíðisdagar eins og jól eru paradagar hjá Kóreubúum.

En einmitt á þessum tíma, þegar kóresk ungmenni eru byrjuð að njóta lífsins þá eru strákarnir teknir út úr samfélaginu og þurfa að stunda herþjónusutu í tvö ár. Að mínu mati er þetta valdur af alls kyns slæmum eiginleikum í kóresku samfélagi. Ég vissi að mismunur kynjanna væri gríðalegur í Kóreu og spurði hvort að þetta tveggja ára námsforskot sem stelpur hafa á stráka væri ekki stór þáttur í því að koma á meira kynjajafnrétti. En mér var sagt að þetta hefði einmitt öfug áhrif og væri einn af völdum þess að konur ættu í erfiðleikum með að koma sér fyrir í atvinnulífinu. Ástæðan sé sú að yfirmenn í kóreskum fyrirtækjum vilja helst hafa undirmenn sem hafa sinnt herþjónustu. Þá heyrði ég líka þá útskýringu að kóreskt atvinnulíf væri mjög smitað af hernum og framkoma þeirra sem eru hærra settir minni á hvernig yfirmenn í hernum koma fram við undirmenn.

Það er því augljóst að Kóreubúar eiga langt í land þegar kemur að kynjajafnrétti og standa þeir mjög illa á listum yfir kynjabil í þróuðum ríkjum, jafnvel verr en í sumum múslimalöndum. Og það sem mér finnst sorglegast er að það virðist lítið vera að breytast eins og staðan er núna. Ég held að þetta sé mjög slæmt fyrir kóreskt samfélag þótt svo að maður verði að bera virðingu fyrir þeirra hefðum og venjum.

Kórea virðist þrátt fyrir þetta gott land til að búa í en ég held að þarna eigi enn eftir að eiga sér stað miklar breytingar sérstaklega þegar eldri kynslóðirnar deyja út, og stríðið klárast. Það mun gefa unga fólkinu tækifæri á að byggja upp samfélag sem er nær því sem við á Íslandi þekkjum og mynda jarðveg fyrir femíníska hugsun í samfélaginu. Þótt svo að samkeppnin verði alltaf til staðar, þá gæti hún orðið töluvert heilbrigðari.

 

13181135_10153507041157124_1945904368_n

Höfundur: Daníel Ingvarsson. Daníel er nemi í hugbúnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Þá situr hann í stjórn Heimdallar, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Mynd: Heimir Hannesson