Á toppi veraldar – síðan 1997

eftir Björn Már Ólafsson

Hvar varst þú þegar Neil Armstrong steig fyrst á tunglið? Manstu hvað þú varst að gera þegar tvíburaturnarnir féllu?

Þegar ég rifja upp fyrstu grunnskólaárin mín þá man ég ekki eftir mörgum samtíma fréttamálum sem vöktu áhuga minn eða samnemenda minna. Í fyrsta bekk í Laugarnesskóla man ég að nokkrir nemendur fengum að sitja inni í einum frímínútum, eitthvað sem venjulega var harðbannað. Þar flykktumst við fyrir framan dvergvaxið sjónvarpstæki til að fylgjast með íslenska karlalandsliðinu í handbolta í beinni útsendingu hinum megin á hnettinum að spila á því sem hefur verið HM í Japan. Leikurinn gegn Ungverjalandi tapaðist. Enn voru 11 ár í Silfurstrákana okkar.

Hitt stóra fréttamálið frá fyrstu árum grunnskólans sem ég man að heltók marga bekkjarfélaga mína var íslenski Everestleiðangurinn árið 1997. Áður en leiðangurinn hófst vorum við látin læra um þetta sögufræga fjall í skólanum og kennurunum tókst á skemmtilegan hátt að flétta þetta mikilvæga fréttamál inn í námsefni sjö ára krakka. Everestfararnir þrír voru hetjur í mínum augum og engin stærri hetja en nafni minn Björn Ólafsson. Maður sem ég hef ekki hitt hvorki fyrr né síðar, heldur birtist hann mér aðeins sem grímuklæddur og dúnhúðaður fjallgöngugarpur á forsíðu Morgunblaðsins í maímánuði árið 1997.

Nú um helgina bárust þær stórkostlegu fregnir að Vilborg Arna Gissurardóttir hafi komist á topp Everest-fjalls aðfararnótt sunnudags (um það leyti sem ég var að leggja höfuðið á koddann eftir nokkra bjóra og góðan gleðskap). Þetta stórkostlega afrek (Everest-gangan, ekki djammið mitt) er niðurstaða fáheyrðrar þrautsegju sem ekki er hægt að lýsa með orðum. Margir hafa hrifist af ferðalögum Vilborgar í gegnum árin. Hún er kraftmikil, sem er mikilvægt þegar glímt er við sterkustu náttúruöfl sem fyrirfinnast á hjörum veraldar, en það aðdáunarverðasta er það hvernig henni tekst að miðla þessum krafti líka í gegnum fyrirlestra og samræður. Þá hefur hún þurft að glíma við erfiðustu hliðar Everest-fjalls í baráttunni við að komast á hæsta topp jarðarinnar.

Það er nefnilega ekki hægt að gera sér grein fyrir þeim erfiðleikum sem fylgja því að komast á topp Everest-fjalls. Everest var klifið í fyrsta skiptið árið 1953 og maður var sendur á tunglið hálfum öðrum áratug síðar. Sú tækniframþróun og nútímabúnaður breytir því samt ekki að Everest-fjall er þannig úr garði gert að fjallgöngumenn eru enn algjörlega háðir því að aðstæður séu hagkvæmar. Þegar allt kemur til alls þá er þetta einföld barátta fjallgöngugarpsins við fjallið. Til að nota gamalþekkta mælikvarða Reykjavíkurskáldsins Tómasar Guðmundssonar þá er Everest-fjall kannski ekki bratt. En það er mjög lítið flatt.

Vilborg Arna er mögnuð fyrirmynd allra sem eltast við stóra drauma og vel að því komin að vera fyrsta íslenska konan til að komast á topp Everest-fjalls. Hún er núna ásamt nafna mínum Birni Ólafssyni uppáhalds Everest-farinn minn.

Björn Már Ólafsson

Ritstjórn

Björn Már er lögfræðingur sem býr og starfar í Danmörku. Hann hefur áður starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu/mbl.is og sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Meðal áhugamála hans eru úthaldsíþróttir og ítölsk knattspyrna.