Á Íslandi er töluð enska

eftir Oddur Þórðarson

Íslendingar eru langflestir, sem betur fer, umburðarlyndir gagnvart því frábæra, erlenda fólki sem kemur hingað til lands og auðgar menningu okkar með skoðunum sínum og lífsviðhorfum. Á seinustu áratugum hefur erlendu vinnuafli á Íslandi fjölgað svo að á sumum vinnustöðum eru Íslendingar, sem fæddust og ólust upp hérlendis, í algjörum minnihluta. Þannig er það t.a.m. á mínum vinnustað en ég vinn á hóteli í Reykjavík. Sennilega og vonandi er það líka upplifun flestra að fólk af erlendum uppruna sé alltént velkomið hingað til lands og að þeirra framlag á íslenskum vinnumarkaði sé mikils metið. Þegar allt kemur til alls þá eru það í raun og veru innflytjendur sem hafa að mestu leyti stuðlað að uppbyggingu ferðamanna – og hóteliðnaðar hér á landi. Því má að stórum hluta þakka erlendu vinnuafli fyrir að hafa leyst íslenskt efnahagslíf úr þeim fjötrum sem það var bundið eftir efnahagshrunið árið 2008. Allt er þetta gott og blessað en eins og flest annað þá dregur þetta auðvitað ákveðinn dilk á eftir sér.

Í dag fer maður nefnilega ekki á veitingastað, hótel, bar eða verslun í miðbæ borgarinnar án þess að neyðast til þess að tala ensku svo maður geti gert sig skiljanlegan. Vel getur verið að flestir hnjóti ekki um að nota ensku ef maður situr á bar í miðbænum en fæstir leiða nokkurn tíma hugann að því hversu fáránlegt það í raun og veru er. Það er fráleitt að vera Íslendingur á Íslandi og þurfa að reiða sig á annað tungumál en móðurmál sitt til þess að versla vöru og þjónustu í eigin landi. Í flestum löndum í Evrópu t.a.m. er auðvelt að tjá sig á ensku við þjónustufólk en spreyti maður sig á móðurmáli þess lands sem maður er að heimsækja er svona venjan að fólk skilji þig og taki því fagnandi að maður reyni þó að tala þeirra tungu í þeirra heimalandi. Þetta gerum við ekki á Íslandi. Við sættum okkur allt of mikið við að tala bara ensku við erlent þjónustufólk sem annað hvort nennir ekki að læra íslensku, eða það sem er algengara; talar bara ensku af því það er auðveldara og það kemst upp með það.

Ef við sem þjóð ætlum okkur að varðveita tungu okkar og menningu þá verðum við a.m.k. að gera þá kröfu til sjálfs okkar og þeirra sem búa hér á landi, sama hvaðan þeir eru upprunir, að hér á landi sé töluð íslenska og að þeir sem hér búi reyni eftir fremsta megni að læra málið. Og ef fólki tekst ekki að læra tunguna að þá er algjört lágmark að virðing sé borin fyrir tungumálinu þegar það er talað; ekki bara að það sé skipt yfir á ensku þegar íslenskan er óhentug.

Auðvitað getur það reynst fólki erfitt að læra íslensku. Það þýðir samt ekki að við sem málið tölum eigum að þróa með okkur eitthvað þol gagnvart því að það sé allt í lagi að nota ensku við hvaða tilefni sem er. Íslenska er móðurmál okkar og jafnframt okkar sérstæðasta og merkilegasta menningararfleið. Ef við vöndum okkur ekki við að bera virðingu fyrir henni þá mun hún glatast. Það er ekki við erlenda innflytjendur að sakast ef íslenskan glatast á næstu áratugum. Það er engum öðrum að kenna en okkur sjálfum, fólkinu sem talar, les og ann tungumálinu sem við tölum. Við verðum að sporna gegn þeirri leti að tala bara alltaf ensku. Við verðum að standa vörð um tungu okkar og menningu. Hættum að sætta okkur við, að það sem gerir okkur Íslendinga að Íslendingum sé smátt og smátt að glatast vegna þess að við erum of löt til þess að bjarga því sem bjarga má.

Oddur Þórðarson

Stjórn, ritstjórn og pistlahöfundur

Oddur er blaðamaður á Morgunblaðinu og nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur þar af lært eitt ár við University of Southampton á suðurströnd Englands og lætur sig því bresk stjórnmál mjög varða. Hann hefur tekið virkan þátt í pólitísku og menningarlegu starfi undanfarin ár og setið í alls kyns stjórnum, nefndum og ráðum síðan á grunnskólaaldri. Oddur hefur mestan áhuga á dægurmenningu Íslendinga, fólki og stöðum.