Á ég þá bara að synda?

eftir Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

Sífellt fleiri eru orðnir meðvitaðri um þau umhverfisáhrif sem einstaklingar valda í sínu daglega lífi. Margir fá orðið fyrir hjartað við það að sjá óflokkuðu rusli hent. Öðrum þykir með öllu óskiljanlegt af hverju ennþá séu borin fram plaströr, hvað þá tvö. Enn aðrir fá óbeit á notkun einkabíla, orkusóun, vatnssóun, matarsóun, einnota pakkningum, lítt-notuðum fatnaði, og skammast sín fyrir það að gleyma taupokanum heima þegar komið er til kaupmannsins. Er þá ónefnd aukna hneykslun fólks á þeim mikla útblæstri koltvíoxíðs sem einstaklingurinn veldur með því að setjast upp í flugvél. Um er að ræða hið svokallaða flugviskubit eða flugskömm, hugtak sem á rætur sínar að rekja til Svíþjóðar.

Samkvæmt íslenskri orðabók má skilgreina flugviskubit sem „samviskubit, sem flugfarþegar fá yfir því að ferðast með flugvél, vegna slæmra umhverfisáhrifa frá flugferðum“[1]. Er það orðin afleiðing þessarar flugskammar að fjöldi flugfarþega á fyrsta árfjórðungi 2019 hefur minnkað um 378 þúsund í Svíþjóð samanborið við 2018[2]. Þrátt fyrir að flugviskubitið sé líka farið að hrjá marga Íslendinga, hefur álíka útbreiðsla ekki enn átt sér stað á hér á landi. Það skýrist kannski líklega af því að við getum ekki hugsað okkur þau örlög að geta aldrei yfirgefið landið okkar, þó ekki til annars en að fara í frí. Vissulega má draga úr því hve mörg flug við tökum með því að lengja ferðalög okkar erlendis, eða jafnvel ferðast meira innanlands. Þar að auki má með góðu móti kolefnisjafna flug sitt með gróðursetningu trjáa, t.d. á vegum Kolviðar[3]. Enn auðveldara er orðið að vita nákvæmt jafnvirði þessa útblásturs í fjölda trjám eftir að íslenskur doktorsnemi í tölvunarfræði í Svíþjóð setti upp reiknivél[4] ætlaða slíkum reikningum[5].

Þar með eru þó ekki allar lausnir upptaldar. Fyritæki að nafni ZeroAvia hefur nú tilkynnt um sölu smærri 10-20 sæta vetnisknúna flugvéla 2022[6]. Áætlað er að þær muni ekki valda losun út í andrúmsloftið, en jafnframt bera minni rekstrar- og viðhaldskostnað en núverandi flugfloti[7]. Enn sem komið er hafa flugvélar þessar einungis drægni upp á 500 mílur eða um 800 kílómetra, en taka verður fram að um helmingur útblásturs sökum flugvéla er valdið af flugum innan 1000 mílna. Því gefur lausn sem þessi færi á að minnka útblástur flugs um allt að helming. Nýting slíkra lausna, ásamt því að fækka flugferðum og kolefnisjafna þau flug sem flogin eru, gefur okkur því góða möguleika á minnka áhrif útblásturs flugvéla í framtíðinni

Það er því ekki þannig að eina lausnin sé að stinga sér til sunds og setja stefnuna þvert yfir Atlantshafið í hvert skipti sem okkur langar í frí á meginlandi Evrópu. Þá eru hugmyndir af lausnum á kolefnisvandanum heldur ekki af skornum skammti. Til þess að ganga úr skugga um að komandi kynslóðir fái tækifæri á að lifa við sæmileg lífsskilyrði er mikilvægt að við hugsum lengra en til morgundagsins. Berum ábyrgð á okkar ákvörðunum, verum opin fyrir nýjungum eins og vetnisknúnum flugvélum, en fögnum þar að auki gamalgrónum lausnum eins og að gróðursetja tré.  


[1] https://ordabokin.is/ord/flugviskubit/

[2] https://www.aftonbladet.se/nyheter/a/kJ02rL/trenden-har-vant–flygresandet-minskar

[3] https://kolvidur.is/um-okkur/

[4] https://mpg.is/ffco.html?fbclid=IwAR1zqufLD1iV6yGluGaDS6OAASVIsHgO1tunRKFzw-XEhUPE4KQwjt1cdvE

[5] https://www.visir.is/g/2019190639959

[6] https://www.systemiq.earth/news-1/2019/8/12/emission-free-air-travel-gets-real-systemiq-backs-zeroavia

[7] https://www.zeroavia.com/

Ragnheiður Björk Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Ragnheiður Björk er meistaranemi í stjórnun ásamt iðnaðarverkfræði í Tækniháskólanum í Munchen og lauk BSc í iðnaðarverkfræði frá HÍ. Hún vinnur nú að meistaraverkefni sínu um lokun virðisaukakeðju vöruframleiðanda og hefur reynslu úr iðnaðnum eftir að hafa unnið hjá McKinsey, Daimler Mercedes Benz Cars og BMW í Þýskalandi. Áður stýrði hún Formula Student liði HÍ við hönnun og smíði rafknúins kappakstursbíls. Skrif hennar í Rómi beinast að femíniskum viðhorfum og áhrifum hnattvæðingar og gróðurhúsaáhrifa á alþjóðasamfélagið.