Hvað er með þetta veður?

eftir Jón Birgir Eiríksson

Ég er ekki mikið fyrir veður. Já, veður. Hvorki „gott” veður né „slæmt” veður. Ég hef ekki áhuga á veðri, hef aldrei haft og það hefur ekki teljandi áhrif á daglegt líf mitt. Í sumar hefur þetta áhugaleysi mitt oftar en áður komið upp í samtölum við fólk enda er („slæma”) veðrið helsta umræðuefnið hvar sem drepið er niður nema kannski á Norður- og Austurlandi.

Margir undrast þetta og spyrja hvort mér finnist ekki betra að flatmaga á sólbekk heldur en að standa úti í úrhelli. Spyrja jafnvel hvort ég sé sjötugur, neikvæður fauskur í líkama ungs manns. Þverhausinn sem maður er svarar því yfirleitt til að úrkomu fylgi margir kostir. Til dæmis sé yndislegt að fá sér göngutúr og anda að sér sérlega fersku lofti í rigningu. Ekki það að úrkoman sé skárri en sólskin eða sólskin betra en úrkoma. Þetta er einfaldlega allt saman bærilegt.

Það eru kostir og gallar við veðurfarið, hvernig sem það er og þegar öllu er á botninn hvolft, líkt og með flesta aðra hluti. Mér er sama hvernig það er því líkur standa til þess að veðrið verði sæmilegt. Á norðurhjaranum getur hvert og eitt okkar fátt gert til þess að hafa áhrif á veðrið frá degi til dags. Við sem búum á Íslandi hljótum líka að endingu að sætta okkur við veðurfarið enda vegum við sífellt alla aðra kosti við búsetu hér upp á móti ókostunum. Þar að auki er mér persónulega illa við að láta stjórnast af hlutum eins og veðri. Það er frelsandi að þurfa ekki að hendast um hvippinn og hvappinn í leit að þeirri gulu.

Hvernig stendur á þessu?

Það er líklega skoðun margra Íslendinga á þessum tímapunkti að veðrið hafi verið „slæmt” í sumar, í það minnsta þeirra sem á Íslandi hafa verið mestan part árstíðarinnar. Rúmlega 66 þúsund Íslendingar fóru erlendis nú í júlí, u.þ.b. 6% fleiri en á síðasta ári. Líklega hafa allir hinir hafi á einhverjum tímapunkti í sumar verið á Norður- og/eða Austurlandi.

Margir hafa velt því fyrir sér orsökum hins afbrigðilega veðurfars sem verið hefur í sumar og hefur Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, auk fjölda annarra, lagt sig fram um að í sumar að útskýra fyrir landanum hvernig á þessu standi. Að hluta til virðist skýringin felast í stórri lægð sem hékk í lengri tíma yfir suðurhluta Grænlands fyrri hluta sumars. Beindi lægðin svokölluðum skotvindi (e. jetstream) beinustu leið yfir Ísland sem flutti hingað allan ósómann fyrr í sumar, en skotvindurinn sem einnig er nefndur Vestanvindur, hlykkjast í austurátt kringum norðurhvel jarðar í um 6-12 kílómetra hæð.

Yfir Skandinavíu hefur hæðarfyrirstaða aftur á móti valdið því að nágrannar okkar á Norðurlöndum hafa séð meira af þeirri gulu og raunar meira en þeir vildu. Að því er fram kemur í umfjöllun Einars telja sumir að hlýnandi loftslag hafi haft áhrif á Vestanvindinn og hægt á honum þannig hlykkirnir á honum verði meiri. Til frekari skýringa skal bent á ítarlega umfjöllun hans.

Gífurlegar afleiðingar

Fyrr í sumar var mér bent á það, í rökræðum um veðrið, að ýmis verkin sætu á hakanum á meðan það rigndi. Þannig væri ekki hægt að mála utandyra, slá gras o.s.frv. Þetta eru góð rök, en ég hugsaði þó með mér að þessi vandamál bliknuðu í samanburði við hluti eins og uppskeruvanda í heyskap norskra bænda sem hafa m.a. þurft að slátra skepnum af þeim sökum. Hvað þá áskoranir slökkviliðsmanna í Svíþjóð sem barist hafa við ógurlega skógarelda þar í landi í sumar. Íslenskir bændur hafa verið í annars konar vandræðum, þ.e. vegna úrhellisrigningar og fá færi gefist til sláttar. Flestir hafa þó getað nýtt örfáar sólskinsstundir og hlaupa þeir nú undir bagga með norskum starfssystkinum sínum og selja þeim hey.

Hér á Íslandi er gjarnan horft til jöklanna þegar veðurfar og hlýviðri er annars vegar. Í sumar kom í ljós stærðarinnar sprunga í fjallshlíð við Svínafellsjökul og benda grófar athuganir til þess að ef berghlaup verður, yrði það gífurlega stórt í íslenskum samanburði. Almannavarnir hafa varað sterklega við mannaferðum við jökulinn og ferðaþjónustufyrirtæki hafa þurft að flytja sig um set og fengu sérstakt leyfi frá Vatnajökulsþjóðgarði til þess að fara með skipulagðar ferðir á Sólheimajökul, en áður hafði þögult samkomulag verið um að ekki væri farið með ferðir á jökulinn. Kenningar eru uppi um að fjallshlíðar við jökla sem koma nú í ljós þegar þeir hopa meira en áður, séu sérlega viðkvæmar enda hafi þær ekki lengur stuðning jöklanna líkt og áður. Fleiri dæmi gætu verið um þetta á Íslandi.

Auk dæma úr samtímanum sýnir sagan sýnir að veðurfar, t.d. langvarandi þurrkar, úrkoma, fellibyljir o.fl. geta haft bein og alvarleg áhrif á samfélög, fyrirtæki, starfsstéttir og fólk almennt. Verði hlýnandi loftslag viðvarandi gæti það haft mjög víðtæk áhrif á veðurfar og svo gæti farið að heimurinn breytist stórkostlega á næstu áratugum.

„Gott” veður og „slæmt” veður

Allt þetta fékk mig til að hugsa hvort veðrið hefði í raun og veru verið slæmt í sumar, og þá fyrir fleiri en Íslendinga, en ekki bara „slæmt”. Það verður að segjast að sú er raunin. Afleiðingar veðurfarsins hafa haft vond áhrif í víðum skilningi, meira að segja í Skandinavíu og Evrópu þar sem hlýviðri hefur verið mest og veður „best”. Sannkölluð hitabylgja hefur verið þar í lengri tíma og valdið ómældum skaða og vandræðum fyrir milljónir manna. Líklega hefur veðrið í sumar verið mjög slæmt, verra en oft áður.

Á þessu stigi var ég við það að hafa samband við skipuleggjendur tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice í því skyni að fá lánað veðurbreytingatækið víðfræga sem mun hafa verið notað á hátíðinni árið 2014 þegar veðurguðirnir gerðu sig líklega til að skemma hátíðina. Með veðurbreytingatækinu mætti kannski snúa þróuninni við með einhverjum hætti og bjarga málunum. Ég staldraði þó við og hugsaði málið aftur, frá upphafi til enda.

Þegar vel er að gáð er ljóst að eftirsóknarverð niðurstaða í veðurfari á hverjum stað fyrir sig er fjölbreytilegt veður, en ekki einsleitt. Því get ég haldið fast í þá skoðun að hvorki „gott” veður eða „slæmt” veður sé gott eða slæmt veður. Það sem meira er, þá er æskilegast að verðið sé  „gott” og „slæmt” til skiptis. Það er hið rétta takmark og með hliðsjón af merkjum um hlýnun jarðar, þarf að grípa til allara mögulegra og raunhæfra ráða svo sporna megi við henni og koma í veg fyrir allar óæskilegar sveiflur í veðrakerfinu.

Jón Birgir Eiríksson

Ristjórn

Jón Birgir er laganemi við Háskóla Íslands. Hann hefur undanfarin ár starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu og situr í aðalstjórn Fylkis. Þá sat hann í stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík og er nú varamaður í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þar áður var hann formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta. Jón Birgir er einnig píanóleikari hljómsveitanna Bandmanna og Ljósfara.