Villingarnir

eftir Gestahöfundur

Ég flutti til Svíþjóðar fyrir tveimur árum. Fannst allt svo bilað hérna heima. Gat ekki hugsað mér að barnið mitt myndi alast upp með Sigmund Davíð í stofunni heima. En þegar maður fjarlægist land sitt kemur ýmislegt í ljós. Ýmislegt sem áður var móðu þakið. Var Sigmundi þakið. Eins og hvað harðfiskur með smjöri er í raun og veru góður. Hversu verðmætt það er að geta farið í heilsuhúsið að kaupa söl, og auðvitað sú lífsnauðsynlega rútína að fara í sund og taka lýsi á hverjum morgni. Nú er ég heima og hangi í Vesturbæjarlauginni á hverjum einasta degi, sem ég gerði nú líka áður en ég flutti út, en gufan í eimbaðinu hefur aldrei verið jafn falleg þegar sólargeislarnir skína inn. Ég fæ meir að segja fiðrildi í magann þegar ég hitti Björk í búningsklefanum.

Það sem ég hef einnig komið auga á, eftir að hafa dvalið í landi þar sem allir eru sammála, enginn hækkar róminn, og þar sem vínarbrauðslengjan klárast aldrei því enginn dirfist að borða síðasta bitann, er hvað Íslendingar eru villtir. Á meðan maður hefur vanist því að vera á böllum þar sem fólk hreyfir í mesta lagi mjaðmirnar eins og Wittner taktmælir, horfir maður á íslenska vini sína dansa eins og bandóðir villingar við bongó trommur. Svo koma þeir upp að manni og spyrja spurninga sem Svíinn mynda aldrei voga sér að spyrja eins og; Hvenær ætlarðu að gifta þig? Ætlarðu ekki örugglega að eignast fleiri börn? – En mikið rosalega kann ég að meta þessa villtu vini mína – og dramatísku náttúruna sem okkur fylgir. Það má ekki gleyma hvaðan maður kemur. Eyjabarn úr norðrinu, handan veggjanna. Mikið mættu Svíarnir nú taka okkur villingana til fyrirmyndar stundum.

En þessi villta stemmning virðist endurspegla alla þætti okkar samfélags og hún er ekki alltaf falleg. Krúnuleikarnir eru í fullum gangi, þar sem „valdabaráttan og græðgin hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar“, eins og Stöð 2 lýsir glænýrri þáttaröð Game of Thrones. Ég geng um borgina sem ég ólst upp í, borgina þar sem ég byrjaði að læra hagfræði árið 2008 og allt hrundi mánuði seinna. Kennararnir tóku sér nokkra daga til að hugsa, en héldu svo bara áfram að kenna sömu bækurnar. Og nú er eins og enn hafi ekkert breyst. Kranar út um allt. „Gulir, bláir, gulir, bláir“ syngur sonur minn í aftursætinu þegar við keyrum um borgina. Uppbygging, uppbygging… Range Roverar og rakettur. Villingar í biðröð eftir ódýru bensíni. Hinn hægri sinnaði jafnaðarmaður er í tísku. Þessi virðulegi jafnaðarmaður vill endilega jafna stöðuna með því að leyfa fátæka manninum að kaupa sér nýtt og lélegt grill í Costco, svo hann haldi kjafti og geti grillað ofan í sig svínabóg á meðan jafnaðarmaðurinn og Bjarni Ben gæða sér á smjörmjúku lambakjötinu frá Fagradal, hlið við hlið í Fossvoginum.

Hvert stefnum við eiginlega? Á meðan nágrannalöndin okkar eru að reyna að snúa við olíuskipinu og endurskoða neysluhegðun sína, högum við Íslendingar okkur eins og þróunarríki. Villingar sem þráum ekkert heitar en að vera eins og ‘hin’ vestrænu ríkin. Eins og kínverskar unglingsstúlkur sem fórna lífi sínu og flytja úr heimahúsum í sveitinni til þess að vinna þrælavinnu á færibandi og eyða síðan öllum peningunum í pinnahæla. Pinnahælarnir verða tilgangurinn. Og eins og ég sé það úr fjarlægð, þá er tilgangurinn hér að fá H&M og Costco til landsins svo að einstæð móðir í Grafarvogi geti grillað ofan í fjölskyldu sína óholla svínabóga og keypt sjötíu mismunandi „dress“ á dúlluna sína.  Á meðan einstæð móðir í Bangladesh hættir lífi sínu og lungum fyrir akkúrat það. Og hver er tilgangurinn?

Nýtt, nýtt, ódýrt, ódýrt. Enginn veit tilganginn.

Ég hef lent í rökræðu við ágæta kunningja mína um ágæti Costco, sirka einu sinni á dag síðan ég kom heim fyrir nokkrum vikum. Og eina sem maður heyrir: Aukin samkeppni, lægra vöruverð! Aukin samkeppni, lægra vöruverð! Partí! Partí! – og hugur þeirra nær ekki lengra. Ekki skrítið, því þetta er það sem tuggið er ofan í okkur, síðan við höfðum „vit“ á því að „skilja“ hvernig samfélag okkar virkar. Eins og heilög mantra sem má ekki flekkja. Ef maður skilur ekki möntruna þá er maður vanviti. Og svo er það okkar virðulegi kökumeistari – leiðtogi villingana – sem fyllir á tankinn hjá fátæklingum sem bíða í ofvæni eftir að fá olíu lítrann sinn 10 krónum ódýrari, á nýja bílinn sem bankinn á, til þess þeim líði eins og þeir séu í sama flokki og Engeyjarættin. Og í staðinn fyrir að niðurgreiða í meira mæli íslensk jarðaber og lambakjöt frá Fagradal, fyllir leiðtoginn á tankinn hjá löndum sínum og lætur þá fá tveggja kílóa Haribo-gúmmí dollu á 700 kall í leiðinni til að gefa börnunum, á meðan hann sendir kollega sinn til New York til að sannfæra Sameinuðu þjóðirnar um hvað honum þyki nú samt vænt um hin nýju sjálfbæru markmið þeirra, þó hann viti greinilega ekkert um hvað þau snúast.

En það sem við Íslendingar verðum að muna er að við erum ekki villingar þrátt fyrir villta náttúru okkar. Við erum einangruð smáþjóð, með himinhátt menntunarstig og einstök tækifæri til að finna nýjan og betri tilgang. Af hverju erum við að fara á spíttbátnum okkar í kolvitlausa átt? Við gætum svo auðveldlega stýrt í aðra átt, í átt inn í framtíðina, framtíð sem er mögulegt að lifa við. Við gætum jafnvel nýtt smæð okkar, auðlindir og einangrun til að skapa hið sjálfbæra fyrirmyndarríki þar sem endurnýjun og endurnýting er í fókus, í allri sinni mynd. Eyjan okkar fagra. Bara ef við vildum.

Áður en við vitum af verður þetta ekki einu sinni spurning um val þar sem jörðin okkar er að bresta undan þungavigtarrisum eins og Costco og H&M. En hér þurfum við ekki að hafa áhyggjur af of stóru olíuskipi sem erfitt er að snúa, eins og flest stærri lönd fyrir neðan okkur. Höldum áfram að dansa eins og villingar, það hefur aldrei skaðað neinn, eins og Voltaire benti svo réttilega á. En við þurfum dansa í rétta átt og nýta villtu orkuna okkar til góðs.  Í staðinn fyrir að fara að byggja hér upp stærðarinnar olíuskip og sigla í átt að einhverju endamarki, langt á eftir öllum hinum, þar sem enginn veit tilganginn og allir búnir að fatta að að það er ekkert handan við markið nema óánægja og ójafnvægi. Notum tækifærið og  verum réttu megin við vegginn og siglum frá markinu. Því annars mun veturinn koma brátt og hann mun vera strangur.

 

Lovísa Eiríksdóttir er 30 ára gamall doktorsnemi við hagfræði- og viðskiptafræðideild Uppsala háskóla. Rannsóknarverkefnið hennar er að skoða hvernig háskólar í Skandinavíu eru að innleiða sjálfbærni og gagnrýna hugsun í hagfræði- og viðskiptafræðimenntun sína. Samhliða náminu starfar hún hjá Swedish International Centre of Education for Sustainable Development (SWEDESD). Lovísa er með MSc. í sjálfbærri stjórnun frá Uppsala háskóla, MA í siðfræði frá Háskóla Íslands og einnig BA í hagfræði frá sama skóla.