5 ára afmæli fasteignaskorts

eftir Jórunn Pála Jónasdóttir

Þennan pistil tileinka ég Ólöfu Nordal, einni fremstu stjórnmálakonu okkar tíma sem verður jarðsungin í dag 17. febrúar. Eiginleiki hennar að geta nálgast stjórnmál af yfirvegun, vandvirkni, hlýju og eldmóði er til eftirbreytni og hvatningar. Ólöfu eigum við mikið að þakka fyrir störf sín og dugnað í þágu þjóðarinnar. Hugur minn er hjá fjölskyldu hennar og vinum.

Ljósi punkturinn

Á meðan ég er að skrifa brunar rúta með tilheyrandi látum fram hjá suðurhlið Skjólgarðs nýjustu stúdentagarða FS, sem ég er svo ljónheppin að geta kallað heimilið mitt. 98% íbúa stúdentagarða mæla með búsetu á görðunum í könnun sem gerð var á meðal íbúa á haustmánuðum 2016. Aðstaðan, leiguverð og staðsetning eru þau atriði sem íbúar telja mikilvægust sem eru einnig forgangsmarkið hjá FS. Að auki eru þeir fallega hannaðir og með það að leiðarljósi að íbúum líði vel.

Lífið á stúdentagörðunum er draumur í dós en fyrir ungt fólk sem hyggur á að flytja að heiman en kemst ekki að á biðlistum stúdentagarða eða er að útskrifast, bendir umræðan til þess að leggja þurfi hausinn í bleyti:

  1. Borgar sig ekki að byggja
  2. Borgar sig ekki að leigja
  3. Borgar sig ekki að leigja út
  4. Borgar sig ekki að kaupa
  5. Borgar sig ekki að fara í Búseta

Vandinn

Af 1-5 hér fyrir ofan er ljóst að það er skortur á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og við það bætist að of fáar íbúðir eru í byggingu í Reykjavík. Í sveitarstjórnarkosningum árið 2014 voru íbúðarmál ungs fólks ein af stóru áherslunum hjá flestum stjórnmálaflokkum sem buðu fram fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur, bæði flokka sem nú mynda meirihluta í borgarstjórn og minnihluta. Það kom kannski ekki á óvart því í raun voru teikn á lofti um íbúðaskort strax árið 2012. Flestir flokkar viðurkenndu þannig vandann árið 2014 en þeim bar á milli um hvernig ætti að takast á við hann. Nú næstum þremur árum síðar hefur staðan versnað og fasteignaverð rokið upp. Skýringin sem oftast er gefin er að hingað til hafi ekki borgað sig fyrir verktaka að byggja annað en hótel, þ.e. íbúðaverð hefur ekki staðið undir byggingarkostnaði. Nú tala hinsvegar margir um að staðan sé nú loks að breytast þannig að með sterkari stöðu krónunnar sé bygging íbúðarhúsa farin að borga sig á ný. Þetta sögðu menn líka árið 2014, og því áhugavert hversu lengi þessi snúningspunktur getur staðið yfir.

Önnur skýring er aukinn fjöldi ferðamanna sbr. nýleg ræða borgarstjóra frá 2. febrúar þar sem hann taldi skortinn skýrast af fjölda AirBnb íbúða í Reykjavík. Athygli vekur að fjöldi lóðaúthlutuna undir nýbyggingar í Reykjavík virðast ekki spila stórt hlutverk sem skýring á skortinum í tölu borgarstjóra og einnig að áherslan til framtíðar virðist frekar liggja í byggingu fleiri hótela en íbúða.

Vandinn getur átt sér fleiri birtingarmyndir en of hátt húsnæðisverð, hættu á bólumyndun og lánaáhættu fyrir þá sem eru nú að festa kaup á fyrstu fasteign. Til dæmis hefur Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra kvennaatvarfsins lýst því hvernig konur eigi erfiðara með að yfirgefa ofbeldisfull sambönd í núverandi ástandi. Þetta útskýrði hún í viðtali við Önnu Orlowsku, ungfrú Ísland 2016.

Rekstur fram yfir fólk?

Kjarnahlutverk sveitarfélaga hlýtur að vera að búa svoleiðis um hnútana að fólk geti búið þar. Sem myndi í núverandi ástandi kristallast í að úthluta nægjanlega mörgum lóðum til þess að mæta eftirspurn eða með því að endurskipuleggja núverandi byggð, eða jafnvel með einhvers konar blandaðri leið eins og er lýst hér á eftir. Fasteignamarkaðurinn er ekki frjáls markaður. Hann er háður úthlutun nýrra byggingalóða og þar kemur ábyrgð og umsjón sveitastjórna inn.

Ummæli Gests Ólafssonar arkitekts og skipulagsfræðings í viðtali vekja mann til umhugsunar um þróunina:

„En þétting byggðar getur líka haft miklar neikvæðar félagslegar afleiðingar. Ein er sú að fátækasta fólkið hrekst úr gömlu hverfunum og fer á útjaðarinn, þar sem það neyðist til að vera á bíl, því flest atvinnutækifærin eru í gömlu hverfunum. Þarna er hugsanlegt að „félagshyggjufólkið“ sé að ganga í skrokk á fátækasta fólkinu í Reykjavík. Efnameira fólkið flyst síðan í gömlu hverfin og getur talið sér trú um að það sé umhverfisvænt á reiðhjólunum sínum.“

Þá má nefna að áframhaldandi þrengingar að bílaumferð til miðbæjarins og ófullkomnar strætósamgöngur hafa einnig áhrif í sömu átt og þar með hugsanlega komnir margir samverkandi þættir sem geta skilað sér út í fasteignaverð og aukið þannig óbeint á stéttaskiptingu eftir hverfum.

Í ljósi alls ofangreinds kemur reyndar ekki á óvart að íbúum hefur fækkað í miðbænum á kjörtímabilinu – því svæði sem borgarstjórn hefur lagt mesta áherslu á. Hugsanlega bendir það til þess að markaðsverð fasteigna í miðbænum sé að verða svo hátt að einhvers konar flótti eins og Gestur varaði við sé að eiga sér stað eða að rekstraraðilar í ferðaþjónustu séu í auknum mæli þeir sem hafi efni á að eiga fasteignir í miðbænum.

Fleiri íbúðir

Eftirfarandi ummæli Bjarna Benediktssonar fyrrv. forsætisráðherra í ræðu sinni á Alþingi árið 1965, í umræðum um frumvarp Einars Olgeirssonar um að ríkið ætti að standa að byggingu 500 leiguíbúða gætu allt eins átt við í dag:

„Ég get ekki skilið þetta frv. á annan veg, þar sem talað er um neyðarástand, er skapast hafi eða sé yfirvofandi, en þar sé viðurkennt, að þetta sé einmitt afleiðing þess, að einstaklingsframtakið hafi ekki fengið að njóta sín i þessum efnum sem skyldi.“

Ég kalla eftir því að borgarstjórnendur greini stöðuna á húsnæðismarkaði sem er löngu orðin ljós, nú nýlegast með skýrslu Arion banka, og hefjist handa við að leysa vandann. Reykvíkingar hafa úthlutað húsnæðismálum til sveitarfélagsins, sem er hér fyrir íbúana en ekki fyrir sig sjálft, og á að vera „tækið okkar til þess að byggja upp landið“ eins og Ólöf Nordal komst að orði um ríkið í ræðu sinni í framboði til varaformanns Sjálfstæðisflokksins árið 2016.

Það er ennfremur mögulegt að vinna að fleiri markmiðum í  einu, þ.e. byggja hótel og íbúðir. Í mekka kapítalismans Bandaríkjunum eru jafnvel dæmi þess að við byggingu hótela hafi verið gert að skilyrði að samþætta þyrfti „X“ margar félagslegar íbúðir inn í hótelbygginguna. Punkturinn er sá að með því að hugsa lausnamiðað er mögulegt að koma til móts við vandann. Ég er sannfærð um að með því að úthluta fleiri lóðum og styrkja samgöngukerfi borgarinnar blasa við miklir möguleikar til þess að laga stöðuna. Þetta mætti jafnvel gera samhliða þéttingu byggðar en það sem verður að vera í forgrunni er að mæta eftirspurninni, eins og félags- og húsnæðismálaráðherra benti á í viðtali á Vísi.is í gær.

Jórunn Pála Jónasdóttir

Pistlahöfundur

Jórunn Pála er lögfræðingur og búsett í Reykjavík. Hún sat áður sem formaður LÍS, hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs formaður Vöku fls., og gjaldkeri Framtíðarinnar í Menntaskólanum í Reykjavík. Hennar helstu áhugamál eru hjólreiðar, fjallgöngur og ferðalög.