Fönixar: Þegar sjónvarpið felldi loks Hollywood

eftir Friðrik Þór Gunnarsson

Nýverið settist ég niður og horfði á kvikmynd sem ég hafði ekki séð lengi. Sú er frá því herrans ári 1978 og heitir The Deer Hunter. Myndin snýst í stuttu máli um fjóra unga menn úr smáum iðnaðarbæ í Pennsylvania sem sendir eru til Víetnam til þess að taka þátt í stríði Bandaríkjamanna þar í landi, og þau áhrif sem stríðið hefur á mennina og bæinn allan. Myndin hlaut 5 Óskarsverðlaun, m.a. fyrir bestu mynd, besta leikstjóra (Michael Cimino) og besta leikara í aukahlutverki (Christopher Walken). Þá er þó ekkert dregið úr framlagi ungs Robert De Niro og ungrar Meryl Streep. Myndin var gefin út stuttu eftir lok stríðsins og þótti ögrandi; myndin er í senn fagurfræðilegt meistaraverk, hörð ádeila á stríðið og krítík á samfélagsmynstur og menningu Ameríku þess tíma. Þegar þessari þriggja klukkustunda ‚tour de force‘ lauk gat maður lítið annað sagt en „Vá“.

Í kjölfar þessa fór ég að velta því fyrir mér hve langt það væri síðan ég hafði séð eitthvað í líkingu við þetta á hvíta tjaldinu. Eitthvað svo frumlegt sem skildi jafnframt svo mikið eftir sig. Þegar ég fór að kanna málið betur skýrðist það fyrir mér: Það er í eðli skapandi greina (sem og flestra annarra kannski) að sveiflast. Undirritaður fær ekki annað séð en að Hollywood sé einmitt á neðri hluta slíkrar sveiflu. Hollywood er fyrir löngu hætt að taka áhættur. Af topp 10 tekjuhæstu myndum hvers árs seinustu 10 ár, hið minnsta, má telja á annari hendi þær myndir sem eru ekki framhaldsmyndir, myndir um ofurhetju/r, teiknimyndir um persónugerðar skepnur eða endurgerðir af einhverju sem hefur á einhvern hátt áður verið gert. Á sama tíma hrúgast út sjónvarpsþættir sem eru hver öðrum betri, frumlegri og meira ögrandi. Að miklu leyti virðast kvikmyndir og sjónvarp hafa skipt um hlutverk á seinustu áratugum. En hvernig?

Sköpun og markaðir

Kvikmyndir og sjónvarp eru ekki einu listgreinarnar sem hafa tekið tíðum og dramatískum breytingum. Áhugaverður samanburður í þessu samhengi er t.d. við markað fyrir málverk, einkum og sér í lagi þann í París í kringum aldamótin 1900. Á þessum tíma spruttu fram róttækar listastefnur á borð við impressjónisma, art noveau, kúbisma og abstraktlist svo fátt eitt sé nefnt. Einnig skutust upp á stjörnuhiminn listamenn á borð við Pablo Picasso, Paul Cézanne, Monet og áfram mætti lengi telja. Fabien Accominotti, félagsfræðingur hjá London School of Economics, er meðal þeirra sem hafa skrifað ítarlega um tímabilið.

Á þessum tíma í Frakklandi var stofnun að nafni Académie des Beaux-Arts sem réð lögum og lofum í listaheiminum. Stofnunin var íhaldssöm og hafði í hávegum hefðbundna franska staðla er vörðuðu stíl og innihald – það voru aðeins þeir listamenn sem buðu upp á portrett, verk af sögulegum toga eða verk af trúarlegum toga sem fengu brautargengi. Það var í viðjum þessa miðstýrða og bælda kerfis sem róttækir ungir listamenn brutu formið og fóru að sýna verkin sín sjálfstætt. Með tíð og tíma spratt upp blómlegur, dreiflægur markaður þar sem listrýnar og miðlarar áttu milligöngu milli listamanna og kaupenda. Í þessu umhverfi þreifst sköpun: Listamenn tóku áhættu og listin var spennandi. Sumt, jafnvel flest, tókst ekki vel til og áttu listamenn ávallt í hættu á að verða fyrir orðsporshnekki. Þrátt fyrir það er ljóst að markaðurinn hafi tekið þessari þróun fagnandi. Tiltölulega óheft samkeppni þessa tíma í sköpun færði okkur mörg af klassískustu málverkum mannkynssögunnar.

Ris og fall Hollywood

Saga kvikymyndaiðnaðarins, einkum og sér í lagi í Hollywood, er efni fjölmargra rita og verður hún ekki reifuð hér nema aðeins með skírskotun í það sem er af sumum talin seinasta ‚gullöld‘ Hollywood: „New Hollywood“ eða „American New Wave“. Þetta er ákveðin stefna sem talin er að markist frá seinni hluta sjöunda áratugar 20. Aldar til byrjun þess áttunda.

Stefna þessi reis upp úr hrakandi kerfi sem svipar um margt til þess sem þekkist í dag: Nokkur stór stúdíó réðu lögum og lofum en voru að einhverju leyti að missa takið á áhorfendum. Tilkoma sjónvarpsins og samkeppnislöggjöf sem hjó í samþættingu stórveldanna[1] í kvikmyndaiðnaðinum hafði gert atlögu að tekjum. Stúdíóin brugðust upphaflega við með því að reyna að nota tækniframfarir og sjónarspil til þess að viðhalda áhuga og arðsemi. Mikið af myndunum sem framleiddar voru af stúdíóum á 6. og 7. áratugnum voru því kostnaðarsamar tilraunir til þess að nýta stærri kvikmyndatjöld, betrun í hljóðtækni og fleiri tækniframfarir eins og CinemaScope. Það var því algengt að sjá sögulegar stórmyndir og söngleiki á þessum tíma.[2] Áfram hrakaði þó áhorfendatölum og afkoma kvikmyndaiðnaðarins. Í kringum 1970 leiddi örvænting og bág efnhagsstaða til þess að stúdíóin færðu meira óheft sköpunarvald til ungra og djarfra leikstjóra og framleiðenda af „baby-boomer“ kynslóðinni. Við tók áratugur sem leiddi af sér margar myndir sem við lítum á í dag sem klassískar. Hér má t.d. nefna myndir á borð við The Deer Hunter, Jaws, Taxi Driver, The Godfather, The Exorcist og að sjálfssögðu Star Wars, en það má segja að sú mynd hafi að einhverju leyti lagt grunninn að þeirri formúlu sem við þekkjum í kvikmyndum nútímans.

Ef spólað er fram til dagsins í dag, þá má segja að hægt og rólega hafi Hollywood komist í gamla farið. Á seinasta áratugi hefur hagnaður fallið skarpt hjá stúdíóum í eigu 6 stærstu fjölmiðlunarveldanna (Disney, Universal, Paramount, 20th Century Fox, Warner Bros. og Sony Pictures). Kvikmyndabransinn er að mörgu leyti í eðli sínu áhættusamur. Það er ómögulegt að vita fyrirfram hvað muni slá í gegn og aðsókn getur sveiflast verulega. Í ljósi þess er Hollywood ávallt í leit að áreiðanlegum uppsprettum arðsemis. Sóknartækifærin hvað varðar miðasölu á heimamarkaði eru að miklu leyti uppurnar fyrir stóru stúdíóin ásamt því að tekjur af heimaskemmtun (DVD o.þ.h.) hafa dregist saman verulega. Stúdíóin hafa brugðist við með því að reyna í auknum mæli að búa til s.k. „tjaldpóla“ myndir – þ.e. myndir sem slá gríðarlega í gegn og verka eins og tjaldpóll sem heldur uppi arðsemistjaldi stúdíóanna. Myndir þessar eru í sínu eðli gerðar til þess að takmarka áhættu og styðjast því einkum við þekkjanlega söguþræði sem hafa virkað og elskaða karaktera ásamt miklum tæknibrellum. Myndirnar eru gríðarlega kostnaðarsamar í framleiðslu en með því að geta markaðssett þær á vaxandi mörkuðum (Kína, Japan o.s.fr.v.) ásamt arðbærum hliðarvarningi (leikföng, tölvuleikir, skemmtigarðar o.s.fr.v.) þá borgar það sig gjarnan að leggja út fyrir þær.[3] Í þessu umhverfi framleiða stúdíóin færri myndir fyrir meiri pening í leit að hagnaði, sem hefur þó leitt til listræns gjaldþrots. Kostnaðarsamar ofurhetjumyndir, framhaldsmyndir og teiknimyndir eru allsráðandi á hvíta tjaldinu. Sköpunin finnur sér þó gjarnan farveg þar sem hún hefur sem mesta frelsið. Á seinustu árum hefur það einkum verið hjá „litlu systir“ Hollywood: Sjónvarpinu.

Litla systir

Sú gullöld sem þáttaserían gengur nú í gegnum er ekkert minna en ótrúleg. Aukning í fjölda nýrra þátta á ári s.l. ár hefur verið ævintýraleg og reglulega koma fram gimsteinar eins og Game of Thrones, Westworld, House of Cards og Stranger Things svo eitthvað sé nefnt. Sjónvarpsþættir risu þó einnig úr viðjum miðstýrðs og heftandi kerfis um aldamótin seinustu. Fram að aldamótum var sjónvarpsmarkaðurinn að miklu leyti á færi fjögurra fjölmiðlafyrirtækja: NBC, ABC, CBS og FOX. Á þessum tíma var línuleg dagskrá allsráðandi og hvikult eðli mannsins þýddi að ekki þurfti mikið til þess að skipt yrði um stöð. Hvatar voru því til þess gerðir að stuðla að einfaldleika, þekkjanleika og sjálfstæði söguþráða, svo að ekki þyrfti að hafa séð fyrri þætti. Hefur þú einhverntíman velt því fyrir þér hvers vegna það var svona mikið um lögreglu- og læknaþætti?

Með tilkomu formbrjóta á borð við Sopranos og Mad Men, ásamt aukningu (og á síðari árum sprengju) í möguleikum neytenda til þess velja hvað þeir horfa á „On Demand“ hafa hvatar breyst í þá átt að færa listamönnum nánast óskorað vald til sköpunar. Þegar neytendur hafa um ótal möguleika að velja og geta jafnframt valið hvar og hvenær þeir horfa, þá snýst allt um gæði. Netflix, Amazon Prime, FX, HBO o.fl. fyrirtæki eru nú í yfirstandandi kapphlaupi við að uppfylla eftirspurn og framleiða næstu brautryðjandi þáttaraðirnar, neytendum af öllu tagi til mikillar ánægju. Þeir sem leiða baráttuna virðast líka vera að njóta ávaxtar erfiðis síns.[4]

Fönixar

Sagt er að allar gullaldir beri í för með sér fræ eigin eyðileggingar. Sköpun er í eðli sínu hvikul og sjálfsprottin, en jafnframt gríðarlega verðmæt fyrir mannfólk. Þegar jarðvegurinn er frjór gerast frábærir hlutir, frægðarsólir rísa og verðmæti eru sköpuð. Með tíð og tíma leiðir velgengni gjarnan til formfestu og íhald í það sem virkað hefur í fórtíðinni. Þegar áhættusókn er heft leiðir það á endanum til hnignunar. Það er þó úr viðjum bælingar sem snilldin virðist springa hvað mest út úr. Skapandi greinar og listform virðast þannig bera með sér eiginleika fönixsins. Þær rísa úr öskunni, fljúga hátt um stund en þegar flugið er sem þægilegast hrapa þær umlukin eld og brennistein til jarðar, til þess eins að fæðast á nýjan leik í nýju formi.

Ég harma hvað hefur orðið af Hollywood, en myndir á borð við La La Land, Moonlight og Get Out blása manni von í brjósti um að bráðum rísi fönix Amerískra kvikmynda. Á meðan ég bíð mun ég hins vegar njóta gullaldar sjónvarpsins.

[1] https://supreme.justia.com/cases/federal/us/334/131/case.html

[2] Hér má bæði nefna frábærar myndir á borð við Cleopatra (sem kostaði þó um $250m á verðlagi 2016) sem og afleitar myndir á borð við The Conqueror.

[3] Kvikmyndir eru þó ávallt áhættusamar. Þessu til stuðnings má nefna myndina John Carter, sem átti að verða stórmynd en varð á endanum til þess að Disney át nokkur hundruð milljón dollara tap

[4] http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2017/07/18/methagnadur_hja_netflix/

Friðrik Þór Gunnarsson

Pistlahöfundur

Friðrik Þór er hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann er víðförull og hefur búið bæði í Bandaríkjunum og London. Hann hefur tekið virkan þátt í starfi Vöku fls. og var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík frá 2017 til 2018.