Hvað með pabbann?

eftir Kristófer Már Maronsson

Ég er stoltur af því að vera hluti af þjóð, þar sem jafnrétti mælist með því allra mesta sem fyrirfinnst í heiminum. Þó má alltaf gera betur. Misrétti finnst enn þá í mörgum skúmaskotum þegar leitað er að því. Sérstaklega er eitt sem hefur vakið áhuga minn sem varðar kostnað við fæðingu barna.

Mamman þarf að vera sjúkratryggð

Staðan er nefnilega sú að börn sem eiga bara eitt sjúkratryggt foreldri við fæðingu njóta ekki jafnréttis eftir því hvort um móðir eða faðir að sé ræða, og þar á sér stað greinilegt misrétti vegna kyns. Hafi móðirin verið búsett á Íslandi í 6 mánuði eða meira, er hún sjúkratryggð og sjúkratryggingar bera kostnaðinn af fæðingu barnsins, óháð því hvers þjóðernis faðirinn er eða hvort hann sé sjúkratryggður. Hins vegar, sé faðirinn sjúkratryggður en móðirin ósjúkratryggð, t.d. því hún hefur ekki búið á Íslandi í 6 mánuði, gilda aðrar reglur. Barnið er íslenskt (í flestum tilfellum), en greiðslur fyrir fæðingu fara eftir DRG-verðskrá Landsspítala. Kostnaður við fæðingu barns getur því orðið umtalsverður, fleiri milljónir króna, sem fjölskyldur þurfa ekki á að halda í sængurgjöf. Til að mynda getur eðlileg fæðing sem gengur vel kostað á þriðja hundrað þúsund, en ef keisaraskurður er nauðsynlegur fer kostnaðurinn vel yfir hálfa milljón og ef eitthvað er að barninu við fæðingu – við skulum ekki fara út í þá sálma.

10. gr. laga um sjúkratryggingar fjallar um hverjir teljast sjúkratryggðir, en heilbrigðisráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Í reglugerðinni er heimilt að kveða á um undanþágur frá sex mánaða búsetuskilyrðinu. Slíkt er þó ekki að finna í reglugerðinni fyrir tilvik sem þessi.

Hvað með pabbann?

Hví nýtur barnið ekki réttinda sem pabbi þess hefur áunnið sér líkt og það nýtur réttinda móður sinnar?

Mér þætti eðlilegt að nóg sé að annað foreldri sé sjúkratryggt og þar með yrði staða barna jöfn. Til þess að koma í veg fyrir misnotkun á slíku má til að mynda framkvæma DNA rannsókn til þess að staðfesta að barnið sé sannanlega getið af sjúkratryggðum einstakling. Þetta þyrfti þó ekki (af augljósum ástæðum) í þeim tilfellum þar sem móðirin er sjúkratryggð, eingöngu þegar að faðirinn er sjúkratryggður en ekki móðirin.

Ég skora á alþingismenn að bregðast við og breyta þessu áður en yfirstandandi löggjafarþingi lýkur. Það myndi færa okkur skrefi nær settu markmiði.

Kristófer Már Maronsson

Pistlahöfundur

Kristófer Már er tveggja barna faðir sem stundar nám við Hagfræðideild Háskóla Íslands og starfar samhliða við viðskiptaþróun hjá aha.is. Hann var formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 2016-17 en var skólaárið 2015-16 framkvæmdastjóri Stúdentaráðs og formaður Ökonomiu, félags hagfræðinema við háskólann. Áður var hann markaðsstjóri nemendafélags Verzlunarskóla Íslands. Meðal áhugamála Kristófers Más eru knattspyrna, hagfræði og skák. Skrif hans í Rómi beinast einkum að hagfræði, fjármálum og hagsmunabaráttu ungs fólks.