Talandi um dagpeninga

eftir Ritstjórn

Varla hefur farið fram hjá neinum að verkfalli sjómanna og vélstjóra lauk í gær með undirritun nýs kjarasamnings. Hafði verkfall þeirra staðið yfir í á tíundu viku og hafði þær afleiðingar að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafði til reiðu frumvarp til laga um lögbann á verkfallið. Einnig hafði formaður atvinnuveganefndar Alþingis blandað sér í málið og látið ráðherrann heyra það, ef svo má að orði komast.

Lausn deilunnar var ekki síst því að þakka, að loðna fannst nýverið og var loðnukvótinn sextánfaldaður frá því sem áður hafði verið ákveðið. Áhyggjur höfðu verið uppi frá því í byrjun árs um að hrun yrði í loðnuveiðum í ár, en annað kom á daginn. Aukinn loðnukvóti setti pressu á samninganefndir sjómanna og útgerðarinnar, en þar sem loðnustofninn er ekki staðbundinn þurfti að hafa hraðar hendur til að hana mætti fanga. Hún staldrar nefnilega ekki svo lengi við.

Einn meginþátta í deilunni var sú krafa sjómanna um að svonefnt fæðisgjald yrði gert skattfrjálst. Þetta atriði stóð eftir um miðja síðustu viku, þegar undirritaður samningur lá fyrir að öðru leyti. Svo fór að lokum, að fulltrúar útgerðarinnar féllust á að standa straum af fullu fæði fyrir sjómenn, endurgjaldslaust.

Standa allar stéttir jafnt?

Dagpeningar eru greiddir vegna ferðalaga starfsmanns á vegum vinnuveitanda og er ætlað að standa undir kostnaði launamannsins vegna fjarveru frá heimili s.s. gisti- og fæðiskostnaði. Undanþága þessi sækir heimild sína í III. kafla laga um tekjuskatt, en í 1. tl. a. liðar 30. gr. er fjallað um dagpeninga. Hugsunin er sú að dagpeningarnir svari í raun til endurgreiðslu vinnuveitandans á útlögðum kostnaði starfsmannsins. Í stað þess að starfsmaðurinn leggi fram nótur fyrir kostnaði sínum af þessum útgjaldaliðum sem vinnuveitandi greiðir svo til baka, er kostnaðurinn áætlaður með þessum hætti.

Þessi upprunalegi tilgangur dagpeninga virðist hafa glatað merkingu sinni, því flugmenn og flugfreyjur fóru að fá greidda dagpeninga fyrir heilan dag erlendis jafnvel þó þeir hafi aldrei farið úr flugvélinni á ferð sinni fram og til baka. M.ö.o. þeir þurftu hvorki að standa undir gisti- né fæðiskostnaði vegna ferðar sinnar.

Þar með var í raun búið að finna leið til þess að greiða þessari stétt laun án þess að af þeim þurfi að greiða neina skatta. Það er því engin furða að aðrar stéttir hugsi sér gott til glóðarinnar í sínum kjaraviðræðum. Þetta er enn ein birtingamynd hins margumrædda höfrungahlaups sem hefur einkennt íslenskan vinnumarkað í áratugi.

Skattar, upp og niður, alls staðar

Dagpeningar í þessari mynd, hvort sem það er þeirri sem sjómenn óskuðu eftir eða þeirri sem flugstéttirnar fá, eru góð leið til þess að flækja skattkerfið enn frekar og gera það ógagnsætt og óskilvirkt. Það er stefna núverandi stjórnvalda að gera einmitt hið andstæða, þ.e. gera skattkerfið einfalt, gagnsætt og skilvirkt. Það má því hrósa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrir að standa föst á sínu og haggast ekki í þessu máli.

Það er stefna núverandi ríkisstjórnar að einfalda íslenskt skattkerfi. Til að fara ekki í bága við stjórnarsáttmálann er nauðsyn að flækja skattkerfið ekki enn frekar, heldur þvert á móti losa skattgreiðendur við þá böl sem fylgir því að einstakir hópar launafólks fái undanþágu frá almennum reglum um skattheimtu, ekki síst þegar þær standast ekki tímans tönn eins og hugmyndin um dagpeninga.

 

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.