40 blaðsíðna móðgun

eftir Ritstjórn

Reykjavíkurborg gaf í vikunni út bækling sem dreift var í öll hús í borginni. Bæklingurinn fjallaði um uppbyggingu íbúða í Reykjavíkurborg og var kostnaðurinn við bæklinginn um 5 milljónir króna. Húsnæðismálin í borginni hafa verið í brennidepli í mörg ár og enn bráðvantar húsnæði, sér í lagi fyrir ungt fólk. Borgarstjóri fylgdi bæklingnum eftir með grein í Fréttablaðinu þar sem hann einfaldaði málið fyrir þá sem nenna ekki að lesa allan bæklinginn:

„Í stuttu máli stendur stærsta uppbyggingarskeið í sögu Reykjavíkur yfir.”

Það vakna margar spurningar við lestur bæklingsins.  Meðal annars vaknar spurningin um það hver upplýsingaskylda borgaryfirvalda er gagnvart íbúum sínum og hvar mörkin liggja á milli pólitísks bæklings og hreins upplýsingabæklings. Útgáfa svona bæklings er í eðli sínu háð einhvers konar ritstjórn. Hvort sem það eru embættismenn, fulltrúar í meirihlutanum eða almannnatengslaskrifstofa sem skrifar bæklinginn, þá er það ritstjórnarlegt mat hvaða efni ratar í bæklinginn, og öllu heldur hvað ratar ekki í bæklinginn. Til dæmis rataði eftirfarandi mynd ekki í bæklinginn en hún sýnir tilbúnar íbúðir í Reykjavík. Kannski mest upplýsandi mynd í öllu því tölfræðifeni sem umræðan um húsnæðismál er.

 

Í bæklingnum fylgdi heldur ekki eftirfarandi mynd sem sýnir fjölda tilbúinna íbúða í Reykjavík. Kannski skiljanlegt enda gerir myndin fullyrðingu borgarstjórans um  að „stærsta uppbyggingarskeið í sögu Reykjavíkur standi nú yfir” ansi hlægilega.

Rétt fullyrðing borgarstjóra hefði verið að segja: „Sjö árum eftir að núverandi meirihluti tók við get ég sagt með ótal fyrirvörum og útreikningum að við gerum ráð fyrir að stærsta uppbyggingarskeið í sögu Reykjavíkur geti hafist á næstu árum.”

Í bæklingnum er einnig að finna ýmsar fullyrðingar og orðalag sem er ekki óumdeilt fyrir „upplýsingabækling” frá Reykjavíkurborg að vera.

„Frá hrunárinu 2008 fækkaði íbúðabyggingum hratt í borginni og árið 2010 var einungis hafist handa við byggingu 10 nýrra íbúða í Reykjavík. Borgaryfirvöld sneru vörn í sókn og brugðust við vandanum með því að ráðast í markvissa stefnumótun í húsnæðismálum. Hún endurspeglast ekki hvað síst í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.”

Gott og vel. Vörn var snúið í sókn, er fullyrt. Þetta orðalag er mjög algengt í fréttatilkynningum frá Reykjavíkurborg. Frá árinu 2010 hefur árlega verið talað um að borgin hafi „fjárhagslega snúið vörn í sókn.” Annað algengt orðalag í fréttatilkynningum borgarinnar er „viðsnúningur hefur orðið í rekstri”.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 var vissulega fjallað um að fjölga þyrfti íbúðum. Um 700 á ári. Eins og myndin að ofan sýnir, gekk það ekki eftir. Raunar mjög fjarri því. Borgarstjórinn ræddi um það á fundi í apríl á þessu ári að nú væri búið að uppfæra þessa tölu. Nýja markmiðið væri 1.250 íbúðir á ári. Var þessi stefna meðal annars sögð vera „róttæk, félagsleg og stórhuga.”

Meirihluti, sem setið hefur frá árinu 2010, kallar það s.s. „stórhuga” að uppfæra sína eigin áætlun með bjartsýnum framtíðarspám eftir að borgin hefur í 7 ár aldrei verið nálægt markmiðum sínum í íbúðabyggingu. Þetta er ekkert annað en móðgun við kjósendur, en mest af öllu er þetta móðgun við ungt fólk sem bíður enn eftir uppfyllingu loforða um uppbyggingu minni og ódýrari íbúða. Á meðan það greiðir hátt leiguverð í stað þess að eignast eigið fé í eigin húsnæði.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.