Vindar popúlisma blása úr öllum áttum

eftir Ritstjórn

Þeir sem aðhyllast frjáls viðskipti og samningafrelsi urðu fyrir töluverðu áfalli í liðinni viku þegar burðugustu talsmenn viðskiptafrelsis á Íslandi urðu margir hverjir popúlisma að bráð þegar fréttir af greiðslu kaupauka til starfsmanna eignarhaldsfélagsins Kaupþings bárust. Mætti ætla að mikill kosningaskjálfti sé kominn í hægri menn á Íslandi. Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, formaður Viðskiptaráðs, Katrín Olga Jóhannesdóttir, og varaformaður fjárlaganefndar, Guðlaugur Þór Þórðarson lýstu öll yfir efasemdum gagnvart samningafrelsinu þegar kemur að einni útfærslu launagreiðslna, bónusum.

Ótækt er þó að sjá þá sem skilgreina sig sem talsmenn einkaframtaksins og frjálsra viðskipta sveiflast svo um eins og strá í vindi. Um leið hljóta menn að spyrja sig í hvaða vegferð er verið að halda. Munu menn þá vera áfram samkvæmir sjálfum sér hvað þetta varðar og vilja bónusa alfarið á brott? Formaður Sjálfstæðisflokksins lét meira að segja hafa eftir sér í kjölfar Kaupþingsmálsins að greiðslurnar lyktuðu af sjálftöku. Erfitt er að átta sig á því hvernig hann getur aðhyllst markaðshagkerfi sem almennt er viðurkennt að byggist á því að einstaklingar leitist eftir því að hámarka hag sinn og á sama tíma verið andvígur því sem hann nefnir ‘sjálftöku’.

Engan þurfti þó að undra að Framsóknarmenn skyldu vera andvígir bónusgreiðslum enda einkennist hugmyndafræði flokksins helst af því sem vinsælast er hverju sinni á meðan vinstri flokkarnir byggja einna helst til á að taka sem mest af náunganum. Þannig hefur þingflokkur Samfylkingarinnar lagt fram mjög sértækt frumvarp sem felur í sér takmörkun slíkra bónusgreiðslna.

Viðbrögð vinstri vængsins eru því eigi síður pópulískur en talsmanna þess hægri. Sagði til að mynda Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, að hægt væri að beita ,,gríðarlega hárri skatt­lagn­ingu á greiðslur af þessu tagi vilji menn ekki fara lög­gjaf­ar­leiðina þannig að bón­us­greiðslurn­ar verði meira eða minna tekn­ar í rík­is­sjóð til að mæta vel­ferðarsam­fé­lag­inu, út­gjöld­um í heil­brigðis­kerf­inu, kjör­um aldraðra, ör­yrkja, fá­tækra barna og annarra sem á þurfa að halda.” Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins sagðist vilja lög um að leggja 90-98% skatt á slíkar bónusgreiðslur svo þær ,,færu ekki til fjög­urra til fimm manna hóps held­ur þjóðar­inn­ar allr­ar.”

Kjósa þessir aðilar alfarið að líta fram hjá því að greiða þurfi hátekjuskatt upp á 46,25% af þessum tekjum, sem ella, í tilfelli Kaupþings, hefðu farið út fyrir landsteinana með kröfuhöfunum sjálfum þegar gengið hefði verið frá síðustu eignunum. Yrðu tekjur ríkissjóðs af þessari upphæð í kjölfarið miklu lægri.

Bónusar eru viðurkennt form þóknunar

Tæknileg atriði varðandi bann við bónusum ættu ein og sér að vera næg ástæða til að hverfa frá slíkum hugmyndum enda hefði auðveldlega verið hægt að búa til félög á bakvið hvern starfsmann og skráð bónusana sem söluþóknun fyrir að koma eignum í verð. Önnur leiðin hefði svo verið sú að gefa út sérstaka hluti í slitabúinu sem hefðu samningsskilamála álíka bónusgreiðslunum. Þannig þyrfti hvort tveggja að banna útgáfu sérstakra hluta en einnig söluþóknanir til félaga í eigu starfsmanna til þess að koma alfarið í veg fyrir bónusgreiðslur. Sennilega yrðu fleiri leiðir færar og enn þyrfti að auka á boðin og bönnin. Nokkuð sem Sjálfstæðisflokkurinn og Viðskiptaráð stæra sig af að berjast gegn.

Þá má einnig nefna að almennt eru bónusgreiðslur alþjóðlega viðurkennt form þóknunar fyrir vinnu. Hæfir einstaklingar sem hafa burði til þess að komast í vel launaðar stöður hljóta því að leita á önnur mið, til annarra landa, verði þeir bannaðir hér á landi. Í það minnsta er viðurkennt að læknar leiti þangað sem laun eru betri – það hlýtur að eiga við um aðra líka.

Einnig er það áhyggjuefni að fyrirtæki á Íslandi skuli aldrei njóta vafans, að enginn í áhrifastöðu skuli vera tilbúinn til þess að viðurkenna að hann viti ekki endilega betur en þeir sem stýra viðkomandi fyrirtæki. Í vor varð uppi fótur og fit þegar tryggingafélög ákváðu að greiða arð út úr fyrirtækjum sínum, þá virtist heldur enginn vera tilbúinn að leyfa þeim að njóta vafans. Er það vegferðin sem Sjálfstæðisflokkurinn og önnur öfl sem talað hafa fyrir markaðsfrelsi ætla að leggja í? Að telja stjórnmálamenn og hagsmunasamtök vita betur heldur en þeir sem inn í fyrirtækjunum starfa?

Ekki verður skafað af því að um áfall er að ræða. Erfitt er að sjá uppgang alþjóðageirans eiga sér stað á Íslandi ef fyrirtæki eigi sífellt á hættu að vera beitt lagasetningu eða úthrópað fyrir að stunda alþjóðlega viðurkennda viðskiptahætti líkt og bónus- eða arðgreiðslur. Ef ekkert verður af slíkum uppgangi er hætt við að þau tækifæri sem við viljum búa fólki hér í framtíðinni, vel menntuðu fólki sem sækir í að leika á stóra sviðinu, verði ekki til staðar. Ef þau verða svo aftur á móti ekki til staðar, verður fólkið það heldur ekki. Allt er þetta samtengt og talsmenn viðskiptafrelsis verða virkilega að leggjast undir feld og ígrunda vel í hvaða vegferð þeir ætla að leggja.

Ritstjórn

Ritstjórn

Ritstjórn Róms skipa Björn Már Ólafsson, Ísak Rúnarsson, Tryggvi Másson, Erla María Tölgyes, Jónína Sigurðardóttir og Oddur Þórðarson.