ISIS: Málsvari Íslam eða andstæðingur?

eftir Birta Austmann Bjarnadóttir

Fjöldi látinna er 84 og yfir 200 eru særðir eftir árásina í Nice síðastliðinn fimmtudag þegar vörubíll keyrði inn í hóp fólks. Hryðjuverkasamtökin ISIS hafa lýst yfir ábyrgð á ódæðinu, þó er ýmislegt sem bendir til að svo sé ekki. Stuttu eftir árásina í Nice síðastliðinn fimmtudag viðraði Repúblikaninn Newt Gringrich þær hugmyndir sínar, sprottnar upp af ótta við ISIS, að kanna afstöðu allra múslima í Bandaríkjunum til sjaría laganna, séu þeir hliðhollir þeim eigi að vísa þeim úr landi. En hvað er þetta ISIS sem stórum hluta heimsins stendur svo mikil ógn af?

Hvar á ISIS uppruna sinn?

ISIS (Íslamska ríkið, IS, ISIL) er hópur súnní múslima í heilögu stríði (jihad) gegn hinum vantrúuðu. ISIS byrjaði sem Al-Qaeda í Írak árið 2004, rétt eftir innrásina í Írak. Fjölmargir Írakar, þá sérstaklega súnní múslimar sem voru nátengdir ríkisstjórn Saddam Hussein, voru óánægðir með innrásina og eftirmála hennar og urðu staðráðnir í því að berjast gegn Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra. Um tveimur árum eftir stofnun Al-Qaeda í Írak fór að bera á nýju nafni hópsins, ISI (Islamic state in Iraq) sem síðar varð ISIS. Árið 2010 tók Abu Bakr al-Baghdadi við sem leiðtogi samtakanna, en hann er enn æðsti meðlimur ISIS. Samtökin færðu út kvíarnar til Sýrlands í kjölfar arabíska vorsins. Þar gátu samtökin nýtt sér óróleikann og átökin sem voru í Sýrlandi á þeim tíma og hin óvinsæla stjórn Bashar al-Assad glímdi við og gerir enn þann dag í dag. ISIS náðu á skömmum tíma  undir sig stórum hluta Sýrlands. Isis á því uppruna sinn að rekja til borgarastyrjaldar í Írak og Sýrlandi. ISIS sleit sig endanlega frá Al-Qaeda samtökunum árið 2014.

ISIS og Al-Qaeda

Eins og fram hefur komið var ISIS til að byrja með hluti af Al-Qaeda en sleit sig seinna meir frá þeim. Þó að bæði samtökin séu hryðjuverkasamtök í heilögu stríði er margt ólíkt með þeim. ISIS og Al-Qaeda urðu til í löngum borgarastyrjöldum, Al-Qaeda gegn rússneskum herdeildum í Afghanistan og ISIS gegn Bandarískum hersveitum í Írak og styrktust enn meir í átökunum í Sýrlandi. Bæði vilja koma á Kalífadæmi þar sem sjaría lögin gilda, en ISIS líta á Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga sinn, sem réttan kalífa. Bæði samtökin eru tilbúin að beita miklu ofbeldi til þess að ná þeim markmiðum sínum. ISIS hefur þó tekist að ná yfirráðum á töluvert stærra landsvæði en Al-Qaeda hefur nokkurn tíma tekist, eru efnaðri samtök og með fleiri nýliða frá vesturlöndum. Þá á ISIS nú meira sammerkt  með herveldi en hryðjuverkasamtökum.

Rekstur og fjármögnun ISIS

ISIS eru talin vera efnuðustu hryðjuverkasamtök í heiminum. Til að byrja með treystu samtökin á styrki frá efnuðum aðilum í Mið-Austurlöndum sem vildu styðja ISIS í að koma Assad frá völdum. Nú er ISIS ekki háð neinum fjárhagslega, ISIS innheimtir sína eigin skatta á þeim svæðum sem það hefur yfirráð yfir, selur olíu, hagnast á ránum og glæpastarfsemi. Talið er að ISIS græði milljón dollara á dag þó sumir telji upphæðina töluvert hærri.

Þá hefur ISIS tekist að fá til liðs við sig marga nýliða frá vesturlöndum. Miðað við höfðatölu hafa flestir gengið til liðs við ISIS frá Finnlandi, Ástralíu, Belgíu, Írlandi og Danmörku. Í febrúar 2015 var áætlað að ISIS teldi milli 20.000 og 32.000 bardagamenn. Hisham al-Hishimi sem hefur sérhæft sig í öryggismálum og vopnuðum átökum telur að aðeins um 30% af meðlimum ISIS séu heittrúaðir og fylgi hugmyndafræðinni, hinir hafi gengið til liðs við ISIS vegna t.d. ótta, reiði eða gróðavonar.

ISIS eru þekkt fyrir mikla grimmd og afhöfðanir, krossfestingar og fjöldaaftökur eru aðeins brot af þeim hrylling sem ISIS aðhefst. Aðfarir þeirra hafa meira að segja vakið upp viðvörunarljós hjá leiðtoga Al-Qaeda, Ayman al-Zawahiri, sem hefur meðal annars gagnrýnt ISIS fyrir þá grimmd sem þeir sýna. ISIS hefur nýtt sér upplýsingatækni 21. aldarinnar mikið í starfsemi sinni, þá helst samfélagsmiðla. Sú starfsemi hefur auðveldað þeim að koma boðskap sínum á framfæri og laða að sér nýja félagsmenn.

Anatomy of ISIS

Hvað vilja ISIS?

ISIS hefur lýst yfir þeirri kröfu að önnur hryðjuverkasamtök sem starfa eftir sömu hugmyndafræði viðurkenni yfirburði þeirra og yfirstjórn og viðurkenni Abu Bakr al-Baghdadi sem leiðtoga. Yfirlýst takmark  þeirra frá fyrsta degi er að koma á hinu réttláta ríki, það er endurvekja kalífadæmi, alræðisríki sem byggir á túlkun sjaría laganna. Þeir vilja koma á stjórn guðs (Allah) til verndar samfélagi múslima (umma). Þeir telja sinn stærsta óvin vera vesturlönd – einkum Bandaríkin – og að þeirra bíði barátta sem spáð var fyrir um í heimsendaspám.

Hér skal þó hafa í huga að eins og með krossferðir kristinna í gamla daga er ekki bara trúin sem liggur að baki. ISIS hafa unnið undir sig stór landsvæði, öðlast mikið vald auk þess sem að gríðarlegar fjárhæðir fara í gegnum samtökin. Kalífadæmi er því helsta krafa þeirra, en ekki má horfa framhjá reiði, hefnd, ofbeldishneigð, völdum og peningum sem alveg jafn sterkur drifkraftur og trúin. 

 Skiptar skoðanir eru á því hvort að hægt sé að telja ISIS til Íslam eða ekki. Múslimar, og þá sérstaklega á vesturlöndum, telja ISIS ekki aðhyllast Íslam og eigi í raun ekkert sammerkt með trúnni, þeir séu frekar „anti-Islam” ef eitthvað er. Á hinn  bóginn er erfitt að færa rök fyrir því að hugmyndafræði ISIS eigi sér ekki stoð í Íslam. Þeir sækja hana í rit og sögu trúarinnar. Réttast væri kannski að segja að ISIS tengist Íslam á margan hátt, sé öfgatúlkun, ákveðinn –ismi innan trúarinnar.

Hér skal þó taka fram að hugmyndafræði ISIS er skýr undantekning frá hugmyndafræði lang flestra múslima í heiminum. ISIS eru ekki talsmenn Islam á neinn hátt. Þeir eru talsmenn sinnar öfgatúlkunar á Íslam, sem fæstir viðurkenna og flestir óttast. Helstu fórnarlömb ISIS eru múslimar, flest dauðsföll sem rekja má til ISIS eru múslimar, þá hafa margir þurft að flýja heimili sín auk þess að múslimar mæta auknum fordómum og mismunun víðsvegar um heim.

Ég geng ekki svo langt að segja að ISIS sé afleiðing framkomu vesturlanda í Mið-Austurlöndum, því það er ekki rétt. Hinsvegar geta vesturlöndin heldur ekki fríað sig allri ábyrgð á því stjórnleysi, hatri og óvissu sem reyndist frjór jarðvegur fyrir öfgaskoðanir ISIS og annara hryðjuverkasamtaka. Tillaga Newt Gringrich að prófa alla múslima í Bandaríkjunum er að mínu mati ekki leið til árangurs. ISIS eru ekki talsmenn múslima, þó að aðili aðhyllist Íslam er ekki þar með sagt að hann sé hryðjuverkamaður, það eru meira að segja nærri engar líkur á því, ekki frekar en að ég aðhyllist sömu skoðanir og Breivik.

Margir af þeim einstaklingum frá vesturlöndunum sem gengið hafa til liðs við ISIS tilheyrðu minnihlutahópum. Með auknu fylgi þjóðernissinnaðra hægri flokka sem meðal annars ala á íslamfóbíu hefur þrengt að hinum ýmsu minnihlutahópum, auknir fordómar, færri tækifæri og viss útskúfun úr samfélaginu. Þetta eru atriði sem við verðum að gæta að, ekki aðskilja samfélagsþegna eftir trúarbrögðum og mismuna heldur sjá til þess að því að allir njóti jafnra tækifæra, það er okkar samfélagslega ábyrgð. Það þarf að gæta að því að fella ekki múslima undir sama hatt og ISIS, með því sköpum við enn meiri reiði og sundrung – sem er það síðasta sem við þurfum núna.

Birta Austmann Bjarnadóttir

Pistlahöfundur

Birta er með B.A. gráðu í stjórnmálafræði og lögfræði frá Háskóla Íslands ásamt meistaragráðu í lögfræði frá sama skóla. Birta starfaði á viðskiptasviði Íbúðalánasjóðs samhliða námi en starfar núna hjá Þjóðskrá Íslands. Hún hefur setið í stjórnum Vöku fls. og stjórn Politica, félags stjórnmálafræðinema auk nefndarsetu í ráðum Stúdentaráðs Háskóla Íslands og Háskólaþingi.