Að uppskera eins og maður sáir

eftir Albert Guðmundsson

Það þarf varla að fræða nokkurn mann um það að Evrópumeistaramóti karla í knattspyrnu lauk í gær með úrslitaleik Frakklands og Portúgal. Eftir framlengdan leik voru það Portúgalar sem stóðu uppi sem sigurvegarar, í fyrsta skipti, þrátt fyrir að hafa misst sína stærstu stjörnu af velli snemma í leiknum. Í augum okkar Íslendinga var þessi leikur þó aðeins spilaður formsins vegna því strákarnir okkar og íslensku stuðningsmennirnir sigruðu mótið fyrir löngu síðan. Við samgleðjumst þó með Portúgölum fyrir afrek sín en munum líklega seint gleyma þeirri staðreynd að við gerðum jafntefli við ríkjandi evrópumeistara og enduðum ofar en þeir í riðlakeppninni.

Eins og flestir vita hefur velgengni Íslands í Frakklandi ekki aðeins vakið athygli hérlendis. Framganga strákanna okkar og þeirra þúsunda íslendinga sem flykktust til meginlandsins til að styðja liðið hefur kveikt í heimsbyggðinni allri. Ísland hefur stimplað sig inn sem gjaldgengur aðili í vinsælustu íþrótt heims, “íslenska” víkingaklappið er flottasta pepp sem íþróttin hefur eignast síðan “bylgjan” var gerð fræg og allar þjóðir vildu að þær ættu stuðningsmenn eins og þeir íslensku. Undirritaður fékk meira að segja lófatak frá heimamönnum fyrir sitt framlag þegar hann gekk út af Stade de France eftir leik Íslands og Frakklands sem er líklega það næsta sem ég mun komast því að vera hylltur fyrir íþróttaafrek. Óheillakrákan sem ég er á líklega stærri þátt í því að Ísland datt úr leik en það er önnur saga.

Evrópumótið 2016 er sennilega ein stærsta landkynning sem Ísland hefur fengið í mörg ár. Til marks um það er áhugi á leitarorðinu “Iceland” nú orðinn meiri en þegar Eyjafjallajökull stöðvaði flugsamgöngur í Evrópu árið 2010 og hefur aldrei mælst meiri.  Afrek íslenska landsliðsins er fullkomið dæmi um það að maður uppsker eins og maður sáir.

 

Ísland fær endalaust nú

undir vængina byr.

Við gáfum öll heiminum hú,

harðfisk, Völuspá, skyr.

(Gerður Kristný)

Albert Guðmundsson

Pistlahöfundur

Albert Guðmundsson er laganemi við Háskóla Íslands og fyrrverandi formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Albert starfar sem flugfreyja hjá Icelandair og er fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hann hefur einnig setið í stjórn Vöku fls. og Stúdentaráði. Helstu áhugamál hans eru stjórnmál og lögfræði.