Tollar afnumdir, so what?

eftir Ásgeir Friðrik Heimisson

Landbúnaður á Íslandi nýtur verndar og undanþágu frá ýmsum lagabálkum til að framfylgja markmiðum búvörulaga. Skýrt dæmi um þetta er að finna í búvörulögum þar sem veittar eru ýmsar undanþágur frá samkeppnislögum. Í búvörulögunum er t.d. afurðastöðvum í mjólkuriðnaði leyft að gera samninga sín á milli um verð og framleitt magn, ásamt því að sameinast undir aðstæðum sem samkeppnislög heimila ekki. Stuðningsmenn búvörulaga halda því fram að þessar undanþágur séu nauðsynlegar til þess að landbúnaður hérlendis sé samkeppnishæfur og til að tryggja almenna velmegun hér á landi.

Ákveðin mótsögn er í þessum málflutningi og ekki víst að undanþágur frá samkeppnislögum bæti hag neytenda eða bænda. Samkeppni er iðulega talin nauðsynleg til að auka velferð almennings og laða fram jákvæða hluti úr atvinnulífinu. Hún tryggir lægra verð til neytenda og hagkvæmni í rekstri fyrirtækja. Samkeppni elur af sér nýjungar, bættar framleiðsluaðferðir og hvetur fyrirtæki til að gera betur gagnvart viðskiptavinum sínum. Skortur á samkeppni og/eða samkeppnishömlur valda þar af leiðandi miklu tjóni fyrir neytendur annars vegar og atvinnulífið hinsvegar. Tjónið felst í hærra vöruverði, lakari þjónustu og minna aðhaldi í rekstri fyrirtækja.

Auk þessa nýtur landbúnaðurinn mikillar tollverndar. Í 10. grein laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim kemur fram að til þess að hindra að dýrasjúkdómar berist til landsins er bannað að flytja inn hráar búvörur. Þá eru lagðir háir tollar á erlendar búvörur og eru tollkvótar á þeim vörum, þ.e. einungis má flytja takmarkað mikið magn af þessum vörum sbr. 12. grein laga nr. 88/2005 um tollalög. Samkvæmt tollaskrá er 30% verðtollur á flest öllum landbúnaðarafurðum, þ.e. allar innfluttar búvörur hækka í verði um 30% við landamæri Íslands. Ásamt þessum verðtolli þá er enn fremur lagður á magntollur á hvert innflutt kíló. Á kjötafurðir nemur þessi magntollur allt frá 400 – 1.500 kr. á kílóið og nemur magntollurinn um 40-60 kr/kg á mjólk og jógúrt. Á öðrum mjólkurvörum er magntollurinn allt frá 200-600 kr. kg. Til að átta sig á þessu og setja þetta í betra samhengi er gott að skoða mynd 1.

2016_05_05 afh mynd 1

Eins og glögglega má sjá þá er tollbinding á mjólkurvörum allt að 6-30 sinnum meiri en almennt á aðrar innflutningsvörur og á kjötvörum er hún 5-27 sinnum meiri. Tollbinding hér á landi er einnig meiri en þekkist í öðrum löndum eins og sjá má hægra megin á mynd 1. Í skjóli tollverndar er því lítið sem ekkert flutt inn af þessum vöruflokkum og mun minna en þekkist í nágrannalöndum okkar eins og sjá má á mynd 2.

2016_05_05 afh mynd 2

Ókostir þess að búa við mikla tollvernd eru að vöruúrval verður takmarkað, m.ö.o. velferð minnkar eins og líkan Krugmans sýnir fram á. Auk þess sem innlendir framleiðendur búa við lítið sem ekkert aðhald frá erlendum framleiðendum, en samkeppni er nauðsynleg til að auka velferð almennings og laða fram jákvæða hluti úr atvinnulífinu. Hún tryggir lægra verð til neytenda og hagkvæmni í rekstri fyrirtækja. Ég hef áður bent á hér á Rómi að umframkostnaður neytenda árið 2014 var um 15 ma.kr. M.ö.o. þýðir þetta að ef tollvernd væri afnumin gæti meðalfjölskyldan hér á landi sparað sér allt að 80 þús.kr í matarinnkaup á ári, eða því sem nemur að lækka matarinnkaup um liðlega 12% ásamt fjölbreyttari úrvali vara.

Sem fyrr segir þá er tollvernd við landbúnað rökstudd m.a. á þeim forsendum að landbúnaður annarra þjóða njóti mikils stuðnings og að við séum þ.a.l. ekki samkeppnishæf við aðra matvælaframleiðendur.

Hvað myndi gerast ef tollar yrðu afnumdir?

Sem betur fer þurfum við ekki að leita langt til að finna dæmi um afleiðingar þess að afnema tolla. Árið 2002 voru tollar felldir niður á þremur tegundum grænmetis; tómötum, gúrkum og papriku, aukinheldur var tollvernd á öðrum afurðum grænmetis breytt. Undirritaður var aðlögunarsamningur milli stjórnvalda og Sambands garðyrkjubænda og samið um árlegar beingreiðslur til að styðja við greinina svo hún gæti aðlagast breyttu rekstrarumhverfi. Neytendur jafnt sem framleiðendur hafa hagnast á þessum aðgerðum en skv. skýrslu Hagfræðistofnunar frá 2013 „Aðlögunarsamningur ríkis og garðyrkjubænda 2002-2012“ hefur verð til neytenda lækkað um 20% miðað við almennt neysluverð og er samanlagður ávinningur neytenda og skattgreiðenda á bilinu 0,2-1 ma.kr. á verðlagi ársins 2012. Á mynd 3 má sjá verðþróun grænmetis á Íslandi frá 1997. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hefur almennt verð á tómötum, gúrkum og papriku lækkað um 40-70% síðan 1997.

2016_05_05 afh mynd 3

Markaðshlutdeild innlendra framleiðenda minnkaði nokkuð þegar tollar voru afnumdir og fór frá því að vera um 70% árið 2000 í 60% árið 2005 en hefur vaxið jafnt og þétt síðan og stendur nú í rúmum 67%. Jafnframt hefur framleiðsluvirði grænmetis aukist um 60% að raunvirði frá 2001 til 2012 (Hagfræðistofnun, 2013). Ennfremur þá benda tölur til þess að framleiðni í grænmetisframleiðslu hafi aukist meira en í öðrum greinum landbúnaðarins. Frá 1998 til 2010 hefur framleiðnin meira en tvöfaldast í grænmetisframleiðslu en því til samanburðar hefur framleiðni í landbúnaði aukist um 53% og landbúnaður án grænmetisframleiðslu um 48%.

2016_05_05 afh mynd 4

Samfara aukinni framleiðni, ásamt öðrum þáttum, er greinin betur í stakk búin til að greiða hærri laun en laun á starfandi hafa aukist mun meira í grænmetisframleiðslu en í landbúnaði almennt. Frá 1998 til 2010 hækkuðu laun að raunvirði um 46% í landbúnaði og 32% í landbúnaði án grænmetisframleiðslu. Hinsvegar hafa laun hækkað um 132% í grænmetisframleiðslu.

Erfitt er að segja nákvæmlega til um hvernig afkoma í greininni breyttist samhliða þessum aðgerðum, flestar tölur benda þó til að afkoman hafi batnað og að framleiðendur sem heild hafi ekki tapað á þessum aðgerðum (Hagfræðistofnun, 2010 og 2013). Að lokum er vert að benda á að framlag grænmetisframleiðslu til landsframleiðslu hélst stöðugt í kjölfar afnáms tolla og hefur framlagið verið að aukast síðastliðin ár þvert á það sem margir héldu myndi gerast og muni gerast ef tollvernd verði afnumin í öðrum greinum landbúnaðarins.

2016_05_05 afh mynd 5

ATH: framlag frá 2011-2013 er áætlað.

Ómögulegt er að spá fyrir um hvað myndi gerast ef tollar yrðu afnumdir einhliða eða í skrefum í öðrum greinum landbúnaðarins. Hinsvegar, gefur reynslan úr grænmetisiðnaðinum ákveðin fyrirheit um að ekkert slæmt þurfi endilega að fylgja slíkum aðgerðum, að minnsta kosti til lengri tíma. Þó svo að fjarlægðarvernd markaðsins hafi minnkað vegna bættra samganga þá hefur íslenskum grænmetisbændum tekist að nýta forskot sitt á markaði með því að merkja framleiðslu sína betur en áður. Með aukinni samkeppni frá erlendum framleiðendum jókst aðhald í rekstri íslenskra grænmetisbænda, við það jókst hagkvæmni í rekstri. Aukin og betri markaðsetning ásamt aðhaldi í rekstri eru meginástæður þess að atvinnugreinin hélt velli. Þetta hefur skilað sér í framleiðniaukningu sem hefur leitt til betri afkomu og hærri launa. En léleg afkoma og lág laun eru talin vera eitt helsta vandmál sem íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir í dag.

 

Ljósmynd eftir Stefán Pálsson. 

 

Ásgeir Friðrik Heimisson

Pistlahöfundur

Ásgeir Friðrik stundar meistaranám í hagfræði við University of Warwick í Bretlandi. Ásgeir Friðrik starfaði áður sem hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Samtökum atvinnulífsins, en hann útskrifaðist úr Háskóla Íslands vorið 2015 með BSc í hagfræði. Einnig sinnti hann stundakennslu í hagfræði við HR og HÍ þegar hann starfaði hjá Hagfræðistofnun HÍ. Þá var hann einnig ritstjóri Hjálma, tímarits hagfræðinema við HÍ.