Námsmenn í fátæktargildru

eftir Sigurður Helgi Birgisson

Saga námsaðstoðar á Íslandi er löng og áhugaverð. Fyrir tilkomu Lánasjóðs íslenskra námsmanna, LÍN, voru veittir ríkisstyrkir til náms enda hefur menntavegurinn ávallt kostað sitt. Um miðja síðustu öld var lagður grunnur að lánasjóðnum, sem þjóna átti námsmönnum og stóðu væntingar til þess að sjóðurinn yrði að lokum sjálfbær. Sé saga lánasjóðsins rakin má þó sjá merki þess að stefna sjóðsins hefur sjaldnast verið hagfelld enda siglir hann í strand með reglulegu millibili. Erfitt getur verið að áætla fjölda lánþega til lengri tíma, sem hefur mikil áhrif í þessu samhengi, en einnig hafa tæknilegar útfærslur verið illa ígrundaðar og valdið rekstrarerfiðleikum. Því er vert að skoða helstu vankanta núverandi fyrirkomulags.

Kerfið hvetur námsmenn til skuldasöfnunar

Ljóst er að LÍN veitir námsstyrki þrátt fyrir að það sé gert með lánafyrirkomulagi. Styrkirnir eru veittir í formi hagfelldra vaxtakjara, niðurfellingu lána og afskriftum lána. Þetta má sjá með því að skoða hlutfall milli núvirðis og nafnvirðis útlána LÍN. Eftirgjöf af lánum er sá námsstyrkur sem lánþegi fær af viðskiptum sínum og fer hann ört vaxandi með hækkandi lánum. Aðili með 20 milljón króna lán getur því áætlað að 82% af þeirri upphæð komi til með að falla á hlut ríkissjóðs. Hlutfall þess sem tekur lán upp á 2,5 milljónir króna er 13%. Uppsetning kerfisins, þ.e. hækkandi hlutfall styrks með auknum lánum, hvetur námsmenn til frekari skuldasöfnunar. Kerfið veldur því óvissu fyrir lánveitanda annars vegar og lánþega hins vegar. Þannig er rekstrargrundvöllur sjóðsins veikur og styrkjakerfi hans ógagnsætt.

mynd13
Tölfræði af heimsíðu LÍN

82% jaðarskattur á námsmenn

Þeir námsmenn sem treysta á aðstoð LÍN eru ekki aðeins hvattir til skuldasöfnunar. Þeim er einnig refsað fyrir sjálfsbjargarviðleitni við tekjuöflun. Frítekjumark lánasjóðsins gerir ráð fyrir skerðingu námslána, fari árstekjur námsmanns yfir 930 þúsund krónur, þá skerðast lánin um 45% af þeirri upphæð sem umfram fer.

Námsmenn með árstekjur á bilinu 930 þúsund til 1.678 þúsund krónur þurfa því að þola 45% jaðarskatt í formi skerðingar á námsláni. Þegar námsmenn fara umfram 1.678 þúsund krónur í árstekjur greiða þeir einnig tekjuskatt. Bein skattlagning, þ.e. 37,13% tekjuskattur auk 45% námslánaskerðingar leiðir til rúmlega 82% tekjuskerðingar fyrir þann hóp. Líkt og útreikningarnir að ofan bera með sér koma aðeins 55% tekna námsmanns umfram 930 þúsund krónur í árstekjur til með að skila sér í auknu ráðstöfunarfé og aðeins 17,87% tekna umfram skattleysismörkin, 1.678 þúsund krónur, skila sér í vasa námsmanna.

Mynd: Rómur
Mynd: Rómur

Tekjuskerðing sem þessi er til þess fallin að letja námsmenn og koma í veg fyrir sjálfstæða tekjuöflun samhliða námi og að sumri. Einnig má leiða líkur að því að skerðingin hvetji til svartrar atvinnustarfsemi og skattaundanskota. Allt þetta leiðir til þess að ríkissjóður verður af tekjuskatti.

Hækkun frítekjumarks leiðir til aukins kostnaðar LÍN þar sem ætla má að útlán hækki en aftur á móti kemur sá kostnaður að miklu leyti aftur í ríkiskassann í formi tekju- og neysluskatts. Kerfið kemur því í veg fyrir sjálfstæða tekjuöflun sem kann þó að hagnast bæði námsmanni og ríkissjóði.

 

Hinn steríótýpíski námsmaður Tekjur á mánuði Tekjur á ári
Sumarvinna 325.000 975.000
Jól 150.000 150.000
Meðfram námi 69.000 552.000
Samtals 1.677.000

 

Til þess að útskýra nánar má taka dæmi af námsmanni sem tekur lán hjá LÍN og vinnur á sumrin fulla vinnu, í þrjá mánuði, auk þess að vinna hlutastarf samhliða námi yfir vetrarmánuðina. Ef við gefum okkur að hann fái 325 þúsund krónur í mánaðarlaun að sumri og 150 þúsund krónur fyrir störf sín yfir jólamánuðinn getur hann aðeins unnið sér inn u.þ.b. 69 þúsund krónur aðra mánuði ársins, án þess að fara yfir skattleysismörk. Þegar þessi námsmaður þarf að auka tekjur sínar, til þess að ná endum saman, kemur hins vegar í ljós að fyrir hverjar 10 þúsund krónur sem hann vinnur sér inn fær hann aðeins 1.787 krónur í vasann. Restin fer annað hvort í skerðingu á námsláni hans eða rennur í ríkissjóð.

Nú legg ég það í dóm lesenda hvort að þetta dæmi teljist raunhæft en í kringum mig eru margir sem eru í nákvæmlega þessum aðstæðum. Ábatinn af því að vinna meira verður nánast enginn, treysta verður á yfirdrátt og allur peningur klárast langt fyrir mánaðarmót. Með öðrum orðum búa námsmenn við fátæktargildru.

Hvað er vænlegast í stöðunni?

Fyrir það fyrsta er brýnt að gera styrkveitingu ríkissjóðs gagnsæja og almenna. Besta leiðin til þess er að veita beina styrki til námsmanna. Með þessu má gera rekstrargrundvöll sjóðsins fyrirsjáanlegri og koma í veg fyrir rekstraráhættu á borð við lánakjör ríkissjóðs, gjaldþrot og afskriftir sem erfitt er að spá fyrir um. Samhliða slíku styrkjakerfi má enn fremur reka lánakerfi sem miðar við markaðsvexti og sanngjörn lánakjör.

Jafnframt er nauðsynlegt að hækka frítekjumark LÍN töluvert. Líkt og Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs, hefur bent á, virðast tekjur námsmanna hafa lækkað um 100 þúsund krónur frá árinu 2004. Frítekjumarkið og sá jaðarskattur sem því fylgir hefur hamlandi áhrif á sjálfstæða tekjuöflun námsmanna og um leið verður ríkissjóður af tekjum.

Nú stendur yfir vinna við endurskipulagningu námslánakerfisins og standa vonir höfundar til þess að námsmönnum verði veitt sanngjarnt svigrúm til tekjuöflunar. Sjálfsbjargarviðleitni námsmanna ber að fagna en ekki hegna.

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Sigurður Helgi Birgisson

Pistlahöfundur

Sigurður Helgi er meistaranemi í lögfræði við Háskóla Íslands og hefur gengt embætti formanns Landssambands ungmennafélaga, LUF, undanfarin ár. Þá er hann formaður stjórnar Félags sjálfstæðismanna í Nes- og Melahverfi. Sigurður sinnti áður starfi hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúa Stúdentaráðs. Helstu áhugamál hans eru lögfræði, stjórnmál og íþróttir. Skrif hans í Rómi beinast helst að stjórnmálum og viðskiptum ásamt málefnum líðandi stundar.