Með byssum skal land byggja

eftir Guðný Halldórsdóttir

Á árunum 2004 til 2013 létust 316.545 manns í Bandaríkjunum af völdum skotvopna, samkvæmt tölum sem CNN tók saman árið 2015. Á sama tíma létust 313 Bandaríkjamenn af völdum hryðjuverka innan og utan Bandaríkjanna. Það þýðir að um þúsund sinnum fleiri Bandaríkjamenn létust af völdum skotvopna en hryðjuverka á þessu árabili. Hins vegar, er það ekki aðeins hinn almenni borgari sem fellur í valinn vegna skotárása heldur féllu stjórnmálaleiðtogarnir John F. Kennedy og Martin Luther King báðir fyrir byssukúlu. Það kemur því eflaust flestum á óvart hversu fast Bandaríkjamenn halda í rétt sinn til að bera vopn.

Skotvopnaeign hefur verið samþætt sögu Bandaríkjanna frá upphafi. Höfundar bandarísku stjórnarskrárinnar rituðu viðauka við stjórnarskrána sem kveður á um rétt borgaranna til að bera og eiga vopn, eða eins segir í viðaukanum: ,,A well regulated Militia, being necessary to the security of a free State, the right of the people to bear Arms, shall not be infringed.” Átakanlegur fréttaflutningur af skotárásum í Bandaríkjunum fær mann þó til að velta fyrir sér hvort lögin séu til þess fallin að verja borgarana. Við skýringar á tilgangi annars viðauka við stjórnarskrána er augljóst að meginmarkmiðið sé vernd borgaranna en færa mætti rök fyrir því að með tímanum hafi hann snúist upp í andhverfu sína og að hinn frjálsi vopnaburður skapi meiri ógn en vernd.

Obama fær ekki sínu framgengt

Umbætur á vopnalögum eru Barack Obama Bandaríkjaforseta mikið hjartans mál og kannski ekki að ástæðulausu. Í kjölfar skotárásar í Connecticut í Bandaríkjunum árið 2012 kom fram tillaga frá Obama um að herða skotvopnalöggjöfina og efla bakgrunnseftirlit. Markmið löggjafarinnar var að torvelda aðgengi að skotvopnum. Einnig vildi hann banna framleiðslu á skotvopnahylkjum sem innihalda fleiri en tíu skot. Tillagan var hins vegar felld af öldungadeild Bandaríkjaþings með 54 atkvæðum gegn 46.

Obama hefur einnig opinberlega lýst yfir stuðning sínum við the Arms Trade Treaty (ATT) sem hefur það að markmiði að hindra vopnasölu þar sem vopnin verða notuð til mannréttindabrota, mannúðarbrota, í glæpsamlegum tilgangi og þar fram eftir götunum. Hingað til hefur einungis verið stuðst við alþjóðleg viðmið, sem hafa ekkert lagalegt gildi, en ATT markar tímamót í alþjóðlegri vopnasölu þar sem með samningnum hafa verið mótaðar reglur. Til þess að samningurinn verði sterkur skiptir miklu að Bandaríkin fullgildi samninginn þar sem þau eiga afgerandi stærstu markaðshlutdeildina í alþjóðlegri vopnasölu. Þátttaka forsetans er aftur á móti ekki næg ein og sér þar sem tveir þriðju hlutur öldungadeildar Bandaríkjaþings þurfa einnig að samþykkja samninginn. Fullgilding samningsins fékk því ekki samþykki.

Löggjöfinni stjórnað af hagsmunum 

Til þess að skilja afstöðu bandarísks samfélags til vopnaburðar er mikilvægt að skilja hversu stóran sess vopnaframleiðsla skipar í samfélaginu. Ein öflugustu hagsmunasamtök Bandaríkjanna eru National Rifle Association (NRA) sem hafa það að markmiði að hafa áhrif á löggjafir sem fjalla um skotvopnaeign. Samtökin telja það stjórnarskrárvarinn rétt borgaranna að eiga og bera skotvopn og bera þar fyrir sig áðurnefndan annan viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar. Kosningum í Bandaríkjunum er að miklu leyti stýrt með fjármagni og eru kosningar til öldungadeildar þar engin undantekning. NRA hefur stutt marga frambjóðendur til öldungadeildarinnar fjárhagslega en það eru þá frambjóðendur sem í staðinn tala fyrir þeirra hagsmunum. Afgerandi hluti þeirra frambjóðenda sem hlutu styrki frá NRA í kosningunum árið 2012 voru repúblikanar en um 90% þeirrar fjárhæðar sem NRA lagði til frambjóðenda öldungadeildarkosningarinnar fór til repúblikana. Stór hluti þeirra frambjóðenda sem NRA styrkti hlaut jafnframt kosningu.

Það er því ljóst að svo lengi sem sterkasta vopn NRA eru peningar þá verður hvorki hróflað við skotvopnalöggjöfinni né ATT samningurinn samþykktur.  Nýliðun er mikil í þessum öflugu grasrótarsamtökum og kemur mikið af peningum inn í gegnum félagsgjöld.  Mikið af vonaframleiðendum styrkja samtökin en þeim er óheimilt að nota það fé í styrki til frambjóðenda. Þegar NRA styrkir frambjóðendur fer það í gegnum PAC á þeirra vegum.

Fyrirtæki orðin fólk, peningar tjáning

Political action committee (PAC) er pólitísk nefnd sem hefur það markmið að hafa áhrif á útkomu kosninga. Þetta eru í raun samtök sem eru ekki formlega tengd einum tilteknum flokki eða frambjóðanda og eiga það til að styðja frambjóðendur beggja megin flokkanna ef það þjónar þeirra hagsmunum. Þak er á því hversu miklar fjárhæðir má leggja í PAC og hversu mikið hvert PAC má styrkja hvern frambjóðanda. Árið 2010 féll dómur í máli Citizens United gegn the Federal Election Commission (FEC) í Hæstarétti Bandaríkjanna. Dómur þessi opnaði á flóðgáttir styrkja til frambjóðenda og rökstuddi meirihlutinn dóminn með fyrsta viðauka við stjórnarskrána sem kveður meðal annars á um tjáningarfrelsi en meiri hlutinn taldi tjáningarfrelsið ekki aðeins ná til persóna heldur einnig til lögpersóna. Þeir sem ósammála voru niðurstöðunni veltu því fyrir sér hvers konar samfélag væri verið að skapa, þar sem fyrirtæki séu fólk, peningar séu tjáning og spilling sé skilgreind sem smávægilegar mútur. Dómurinn hafði mikil áhrif á umhverfi stjórnmálanna vestan hafs en áhugavert væri að sjá hvernig sambærilegt mál færi ef hæstiréttur Bandaríkjanna væri skipaður frjálslyndari dómurum í meirihluta. Í kjölfar þessa urðu til super PAC sem eru ný tegund af PAC en þau mega safna ótakmörkuðum upphæðum frá fyrirtækjum, stéttafélögum, hagsmunahópum og einstaklingum. Að sama skapi mega þau verja ótakmörkuðum upphæðum í kosningaáróður fyrir þá frambjóðendur sem þeim þóknast. Super PAC mega hins vegar ekki styrkja frambjóðendur beint líkt og PAC mega og verða að gefa upp styrki sína til FEC.

Allt PACað af peningum

Þegar skoðaðar eru tölur yfir hversu mikið nokkrir af stærstu vopnaframleiðendum Bandaríkjanna eru að styrkja frambjóðendur til þingkosninga er nokkuð ljóst að þeir vilja tryggja sinn málstað með því að hafa sterka málsvara sína á þingi. Til að mynda hefur BAE Systems, breskt vopnaframleiðslufyrirtæki sem er meðal annars staðsett í Bandaríkjunum, fjármagnað super PAC og það sem af er núverandi kosningabaráttu hafa þeir styrkt með tæplega 600.000 bandaríkjadölum. 65% til repúblikana en 35% hefur farið til demókrata. Lockheed Martin, annað stórt vopnaframleiðslufyrirtæki hefur veitt rúmlega 400.000 bandaríkjadölum í super PAC. Sú fjárhæð hefur runnið til beggja meginflokkanna, 64% til repúblikana og 36% til demókrata. Freedom Group, sem framleiðir meðal annars Remington og Bushmaster, hafa jafnframt veitt tæplega 70.000 dollurum í styrki til super PAC. 62% styrkjanna hafa runnið til repúblikana og 38% styrkja til demókrata.

Þó svo að upphæðir styrkjanna séu enn sem komið er ekki sláandi munu þær einungis fara hækkandi þegar nær dregur kosningum. Hlutföllin milli styrkja sem renna til repúblikana og demókrata verða að öllum líkindum svipuð og nú. Það eru þó skiptar skoðanir á milli forsetaframbjóðendanna um þessa styrki.  Donald Trump, sem leiðir kjör repúblikana, segist ekki vilja taka við slíkum fjárframlögum en hann vill síður vera bundinn af hagsmunum þeirra sem styrkja hann. Ted Cruz og Marco Rubio eru þó að miklu leyti fjármagnaðir af super PAC. Hillary Clinton, sem leiðir kjör demókrata tekur við miklum fjármunum frá slíkum samtökum og hefur mátt sæta talsverðri gagnrýni fyrir það.  Sérstaklega hefur hún mátt heyra gagnrýni frá aðalkeppinauti sínum í demókratakjörinu: Bernie Sanders, en hann tekur nær einvörðungu við smáum upphæðum frá almennum kjósendum. Þennan hugsjónamun frambjóðendanna má skýra sem svar við þeirri umræðu vestan hafs að stjórnmál láti stýrast af fjárframlögum hagsmunasamtaka og sé oft skaðleg almenningi. Hvort síðastnefnda staðhæfingin sé réttmæt eða ekki er látið vera að svara í þessum pistil.

 

Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.

Guðný Halldórsdóttir

Pistlahöfundur

Guðný er nemi í hagfræði við Háskóla Íslands og hefur lögfræði sem aukagrein. Hún er búsett í New York en er alltaf með annan fótinn á Íslandi. Guðný er einn af stofnendum Hagsmunafélags kvenna í hagfræði og situr í stjórn félagsins. Helstu áhugamál hennar eru hagfræði, útivist og matargerð.