Fyrir ári síðan virtist allt ætla um koll að keyra þegar Hagstofa Íslands birti árlega mannfjöldaspá sína. Fjölmiðlar birtu hverja fréttina á fætur annarri um að Hagstofan spáði sprengingu í fjölda erlendra íbúa á Íslandi á næstu árum á meðan greiningaraðilar kepptust við að draga raunsæi spárnar í efa.
Um miðjan október síðastliðinn birtist svo ný mannfjöldaspá Hagstofu Íslands. Þessi mikla æsifrétt frá árinu áður virtist ekki vekja áhuga fárra í þetta skiptið. Það væri ekki frásögu færandi nema fyrir þær sakir að spáin er jafnvel enn ótrúlegri en sú frá árinu á undan.
Sá vöxtur mannfjölda sem hlaut svo mikla umfjöllun í fjölmiðlum síðasta haust heldur áfram næstu fimm árin eða svo, ef spá Hagstofunnar gengur eftir. En árið 2024 dregur til tíðinda. Hagstofan spáir því að Íslendingum eigi eftir að fækka um 2.500 manns fram til ársins 2028. Síðan heldur vöxturinn áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Þessa tímabundnu fólksfækkun Hagstofunnar má rekja til fólksflótta um tæplega 2.700 manns á ári árin 2024-2028 áður en fólksflutningar milli landa nái aftur jafnvægi.
Hagstofa Íslands rökstyður þessa spá sína með þeim hætti að spáin frá 2018-2022 sé skammtímaspá sem byggi á skilgreindum forsendum um hagvöxt. Síðastliðin ár hafi verið mikill hagvöxtur sem valdið hafi miklum aðflutningi fólks og því sé fyrirséð að samfara minnkandi hagvexti dragi úr vexti aðfluttra.
Ólíkt fyrri spá tekur svo við 5 ára tímabil milli skammtíma- og langtímaspárinnar sem Hagstofan notar til að ná jafnvægisástandi í á fólksflutningum milli landa, en til að ná því „þarf að gera ráð fyrir að hinn mikli fjöldi aðfluttra hverfi aftur til baka eftir skammtímaspána eins og reyndin hefur verið undanfarna áratugi.“
Þó raunin sé sú að erlendir ríkisborgarar yfirgefi landið jafn fljótt og þeir koma hingað þá vekur þessi breyting upp fleiri spurningar en hún svarar. Hvað olli því að þessar breytingar áttu sér stað milli ára? Af hverju er fimm ára bil milli skammtíma- og langtímaspárinnar? Af hverju þarf jafnvægisástandið í fólksflutningum milli landa að eiga sér stað með svona harkalegum hætti?